149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langar að beina sjónum mínum fyrst aðeins að íslenskum landbúnaði og því sem kemur fram í fjármálaáætluninni, vera kannski á svipuðum nótum og margir þingmenn hafa verið hér varðandi rannsóknir og þróun.

Ég fagna því sérstaklega að ráðherra sýni því mikinn skilning að efla rannsóknir á sviði landbúnaðar og ýta undir nýsköpun því að ég held — og er sannfærð um — að sóknarfæri í íslenskum landbúnaði eru gríðarleg með þetta hráefni sem við höfum. En það þarf að sýna ákveðið frumkvæði.

Ég vil líka fagna því að áætlunin helst áfram varðandi það að koma upp öflugum matvælasjóði. Ég vil spyrja ráðherra hvort það sé ekki ætlunin að sameina þá framleiðslusjóð landbúnaðarins og AVS. En um leið skil ég að það þarf að koma aukið fjármagn og ég spyr: Er einhver hluti af þeirri aukningu sem er í nýsköpunarmálum ætlaður fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn og í öflugan matvælasjóð?

Varðandi landbúnaðinn er losun innan geirans kannski þriðja mesta losunin á gróðurhúsalofttegundum á Íslandi. Þar er áætlun samkvæmt plagginu hér að staðan á árinu 2018 sé 456.000 tonn en viðmiðið 2020 að minnka um 2% og síðan aftur 2024 um 2%. Ég verð að segja að mér finnst ekki alveg nægilega mikill metnaður í þessu.

Sér ráðherra eitthvert svigrúm til að þessar tölur breytist í samvinnu við greinina? Getur verið að greinin sjálf hafi meiri metnað til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en kemur fram í plagginu? Ég held að þetta sé eitt mikilvægasta málið fyrir okkur núna þegar við erum að reyna að nálgast landbúnaðinn, hvernig hægt sé að ramma hann betur inn og taka utan um hann. Hvernig framtíðarsýn við höfum, m.a. á þessu sviði.

Er breytinga að vænta (Forseti hringir.) varðandi viðmiðin — og þá þetta kannski frekar metnaðarlausa markmið?