149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra fyrir framsöguna og fyrir að vera með okkur hér í kvöld. Ósjaldan höfum við talað um þá óvissu sem komin er upp og lýtur að fjárlagaáætlun næstu ára, að hér er viðvarandi fyrirsjáanlegur loðnubrestur á árinu með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sjávarplássin úti á landi, ótrúlegur skaði og mikið áfall sem ég býst við að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir. Spurning mín er þessi: Getur ráðherra séð það fyrir sér að reyna að milda þessi áföll á einhvern hátt? Sér hann fyrir sér möguleika eins og á árum áður?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við horfumst í augu við loðnubrest, en þá var gripið til þess ráðs að úthluta auknum heimildum. Á þeim tíma var það þorskur, loðnuútgerðir fengu þá aðgang að veiðum á þorski í einhverjum mæli. En nú eigum við kannski stofna, nytjastofna. Við getum nefnt stofna sem við höfum ekki nýtt áður, t.d. gulldeplu og laxsíld. Er það eitthvað sem við mögulega gætum gert, hæstv. ráðherra, til þess að reyna að milda þetta högg? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherra hefur komið auga á? Það væri kannski gaman að fá að heyra það hér og nú.