149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Nei, hún er ekki slæm fyrir landbúnaðinn. Ég heyri það að hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af tollasamningnum sem gerður var og tók gildi 1. maí 2018 og telur að innflutningur stóraukist á grunni hans. Það er ekki rétt ef við horfum bara til hlutanna eins og þeir eru. Innflutt nautakjöt, svínakjöt og alifuglakjöt er einn fjórði af íslenskum kjötmarkaði. Hlutdeild þessa innflutnings á árinu 2017 var á bilinu 20–30%. Hvað gerðist þegar tollasamningurinn tók gildi? Innflutningur dróst saman á árinu 2018, milli áranna 2017 og 2018, þrátt fyrir þessa tölu og umræðu um að þetta sprengi af sér alla skala.

Afstaða aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtakanna var sú að þetta sýndi traust almennings á íslenskum landbúnaði, hann væri að standa sig í þessari samkeppni þrátt fyrir aukinn þrýsting frá tollum og auknum innflutningi. Þetta eru hans orð.

Við erum vissulega að ræða viðbrögð við dómnum frá EFTA-dómstólnum en sömuleiðis hæstaréttardómi okkar eigin kerfis sem er mikið högg. En af því að hv. þingmaður nefnir að það hefjist innflutningur á hráu kjöti í haust þá er allur þessi innflutningur hrátt kjöt, t.d. hátt í 4.000 tonn á árinu 2017. Það er bara frosið. En það er hrátt. Á bara eftir að þíða það. Það snýst um það hvort við ætlum að flytja inn hrátt eða ófrosið. Það vegur kannski hvort annað upp.

Það er rétt að það ber ekkert mikið á þessum fjárhæðum sem hv. þingmaður kallar eftir í fjármálaáætluninni. En engu að síður er að sjá styrkingu t.d. á eftirlitshlutverki og getu Matvælastofnunar til að annast ákveðna þætti tengda einmitt þessu máli. Við sjáum þess stað t.d. í birtingu þeirra upplýsinga sem komu í fréttum í síðustu viku, (Forseti hringir.) um sýklalyfjaónæmi í íslensku lambakjöti. Það er vitneskja sem við höfum hingað til ekki haft og þar af leiðandi (Forseti hringir.) ekki getað búið okkur undir varnir í þeim efnum.