149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:42]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á blaðsíðu 104 í þeirri áætlun sem við ræðum hér í kvöld, undir 13. lið sem kallast „Sjávarútvegur og fiskeldi“, segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki frá fjárlögum fyrir árið 2019 til ársins 2024. Lækkunin skýrist að mestu af því að tímabundin einskiptisframlög í fjárlögum fyrir árið 2019 falla niður. Aðrar breytingar til lækkunar skýrast af reiknuðu aðhaldi í samræmi við forsendur fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þá má nefna breytingar á tímabilinu sem hafa tímabundin áhrif á útgjaldaramma, m.a. 3,2 milljarða kr. vegna smíði nýs hafrannsóknaskips.“

Mér þykir þessi væntanlegi niðurskurður til málefnasviðsins afar varhugaverður. Við gerð fjármálaáætlunar frá árunum 2017–2021 áætlaði ráðuneytið að auka þessi framlög þar sem aukin umsvif fiskeldis krefðust jú aukins eftirlits.

Hvernig má það þá vera, virðulegi forseti, að núverandi ráðherra og ráðuneyti treysti sér til þess að sverfa í burt hátt í hálfan milljarð á ársgrundvelli en samhliða halda því fram að bæði sjávarútvegur og fiskeldi þarfnist trausts vísindalegs grunns til að starfa með eðlilegum hætti?