149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:45]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem ég mun skoða ítarlega. Það er alveg ljóst að á næstu árum verðum við að vinna að því að efla þennan málaflokk. Atvinnuvegirnir eru að verða fjölbreyttari með tilkomu fiskeldis og það er nauðsynlegt að viðhalda vísindalegri þekkingu og auka hana með rannsóknum, bæði til að tryggja afkomu atvinnugreinarinnar og til að tryggja umhverfið til frambúðar.

Samt lítur eins og áður segir út fyrir að það eigi ekki að auka neitt framlög til rannsókna til að auka þekkingu á málaflokknum. Raunar eru öll aukningin til komin vegna fjárfestingar í nýju hafrannsóknaskipi. Enda þótt ég fagni því sannarlega, lítur út fyrir að það geti orðið samdráttur í framlögum til rekstrarins. Hvernig eigum við að auka þekkingu okkar ef við búum á sama tíma við niðurskurðarkröfu í málaflokknum?

Og að umhverfinu aftur. Það má eiginlega segja að hafið sé nýja loftslagið. Ég er mikið fyrir lausnir og vil koma með lausnir frekar en að tuða. Þess vegna vil ég benda á að það er svo borðleggjandi að umhverfis- og auðlindaráðuneytið (Forseti hringir.) og sjávarútvegsráðuneytið vinni saman að þessum hlutum og þá mundu kannski — hver veit? — opnast aðrir gluggar fyrir fjármagn til rannsókna og svoleiðis. Telur hæstv. ráðherra að svo sé?