149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég ætla að vera á sömu nótum og þeir sem áður hafa rætt við ráðherra. Fyrst út af fiskeldinu. Ég er komin að sjávarútvegshliðinni núna. Ég tek undir það að markmiðin eru fín og mikilvæg og sérstaklega tel ég mikilvægt fyrir fiskeldið að við gerum mjög skýrar kröfur, strangar kröfur. Við eigum að vera strangari en aðrar þjóðir því að í því felst ákveðin verðmætasköpun. Við verðum að vera með verðmætari afurðir ef við ætlum að ná einhverri fótfestu á mörkuðum.

Mig langar að vita nákvæmlega hvað er í markmiðunum í áætluninni, fyrir utan það að Umhverfissjóður sjókvíaeldis mun aukast, af því að verið er að tala um sjálfbæra nýtingu hafsvæða fyrir fiskeldi, sem hvetur fyrirtækin áfram, t.d. í rannsóknum á ófrjóum eldislaxi. Hvað verður til þess að við getum ýtt þeim áfram? Ég hef heyrt að fiskeldisfyrirtækin telji að það sé svo langt í framþróun í nýrri tækni í fiskeldi, hvort sem það eru lokaðar kvíar eða ófrjór eldislax. Hvað getum við gert til að ýta þessari þróun áfram og hvar sér þess stað í áætluninni?

Síðan vil ég eindregið hvetja ráðherra og biðja hann um að passa upp á það núna í haust í tengslum við fjárlagagerðina að við lendum ekki í sömu stöðu og núna fyrir jól varðandi Hafró. Hvort sem það voru mistök eða ekki þá er þetta alveg ótrúlega viðkvæmt, sérstaklega á mörkuðum fyrir íslenskar afurðir. Ég bið því ráðherra sérstaklega að halda vel utan um Hafrannsóknastofnun og hvetja hana áfram til þess — og það er alveg rétt sem hann sagði að fyrir tveimur árum var sérstaklega sett fé í loðnurannsóknir. Við verðum að gera það, halda áfram. Það var erfitt að heyra það á fundi atvinnuveganefndar í morgun að vegna niðurskurðar hefði ekki allt fjármagnið farið í loðnurannsóknir sem fara átti í þær.

En ég tel mikilvægt að ráðherra sýni frumkvæði í því að halda enn (Forseti hringir.) betur utan um Hafró og reyna að ýta loðnurannsóknum áfram því að það er gríðarlega mikilvægt núna þegar vitneskjan er ekki meiri en raun ber vitni varðandi vistkerfið í hafinu og samspil þess við fiskstofna okkar.