149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

skógar og skógrækt.

231. mál
[16:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tölum hér um skóga og skógrækt. Það er eitt sem ég furða mig á að er ekki nefnt á nafn í þessu frumvarpi, þ.e. að við séum svolítið framsýn og komum á brunahólfum, að menn sjái til þess í fyrsta lagi að landið sé hólfað niður þannig að heilu skógarbeltin brenni ekki bara og í öðru lagi að húsnæði, býli og annað, sé ekki í hættu og í þriðja lagi, sem gleymist líka, að ef kviknar í og það verður eldur í skógum þarf að vera hægt að komast að með tæki og tól, það sé gert ráð fyrir því líka.

Við verðum vitni að þessu úti um allan heim. Það brenna skógar, heilu beltin sem hafa farið og eldurinn verður stjórnlaus. Það virðist engum detta í hug, ár eftir ár eftir að slíkt gerist, að setjast niður og hugsa: Hvernig getum við komið í veg fyrir að heilu beltin hverfi? Getum við ekki hólfað þetta niður og gengið þannig frá að ekki sé nein hætta á því og það séu bara ákveðin hólf sem geti brunnið? Við verðum að átta okkur á að það geta komið þurrkakaflar og það getur verið fjöldi fólks í skógum á labbi að njóta þeirra, á sama tíma og brennur. Við vitum hvað skeður ef það er mikill vindur, þá er þetta fljótt að breytast í víti á jörðu.