149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[17:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum. Það fjallar um erlendar póstsendingar og rafrænar sendingar.

Frumvarpið felur í meginatriðum í sér þrjár breytingar á gildandi lögum um póstþjónustu. Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði skýr afstaða til þess að landslög gangi framar alþjóðaskuldbindingum en að virða beri alþjóðaskuldskuldbindingar svo fremi sem þær gangi ekki gegn íslenskum lögum. Í öðru lagi er lagt til að rekstrarleyfishafa alþjónustu hér á landi, þ.e. Íslandspósti ohf., verði gert kleift að setja gjaldskrá og taka gjald af erlendum pakkasendingum til landsins og í þriðja lagi er lagt til að rekstrarleyfishafa alþjónustu verði heimilað að senda tollupplýsingar rafrænt til sambærilegra aðila erlendis.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að reifa hverja einustu grein í ræðu þessari heldur tel ég rétt að reifa framangreindar þrjár meginbreytingar nánar með almennum hætti.

Í gildandi lögum um póstþjónustu er alþjóðasamningum gert hærra undir höfði en gengur og gerist í íslenskum rétti. Þannig kemur t.d. fram í 51. gr. gildandi laga, með leyfi forseta:

„Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.“

Aðrar greinar frumvarpsins, svo sem 6. gr. og 15. gr., bera keim af þessu. Það er mat mitt og ráðuneytisins að það samræmist betur svokallaðri tvíeðliskenningu sem við aðhyllumst hér á landi að því verði öfugt farið, þ.e. að milliríkjasamningar um póstþjónustu haldi gildi sínu svo fremi sem þeir brjóti ekki í bága við íslensk lög. Reyndar er lagt til með frumvarpi þessu að hluti 51. gr. verði felldur brott og settur fyrirvari við 6. gr. laganna sem og 15. gr. Þær breytingar taka öll tvímæli af um að heimilt verði að innheimta gjald vegna erlendra pakkasendinga, sem ég kem að á eftir. Þess ber að geta að íslensk stjórnvöld eru samt sem áður þjóðréttarlega skuldbundin af þeim alþjóðasamningum sem þau hafa skuldbundið sig til að virða.

Það hefur engum dulist á síðustu misserum að rekstur Íslandspósts ohf., sem fer með alþjónustuskyldu í pósti hér á landi, á undir högg að sækja. Staða sambærilegra fyrirtækja í hinum vestræna heimi er í flestum tilvikum í svipuðu horfi, en fram hefur komið af hálfu félagsins að þessi staða sé m.a. til komin vegna óhagstæðra endastöðvargjalda á pökkum og mikillar fjölgunar erlendra pakkasendinga. Í frumvarpinu er því lagt til að heimila rekstrarleyfishafa að leggja sérstakt gjald á viðtakendur erlendra póstsendinga þar sem endastöðvargjöld standa ekki undir raunkostnaði. Þá er lagt til að ekki verði hægt að sækja um það til Póst- og fjarskiptastofnunar eða annars stjórnvalds að fá tap sem hlýst af erlendum póstsendingum bætt.

Þannig má segja, herra forseti, að markmið frumvarpsins sé að verja stöðu ríkissjóðs sem ekki kemur til með að greiða bætur til alþjónustuveitanda vegna veitingar þessarar tilteknu þjónustu innan alþjónustu verði frumvarpið að lögum.

Loks er með frumvarpinu lagt til að rekstrarleyfishafa verði veitt heimild til að senda rafrænar upplýsingar til erlendra tollyfirvalda eða póstrekanda erlendis til að auðvelda flutning póstsendinga milli landa neytendum í hag en einnig með því markmiði að auka öryggi. Tilgangur heimildarinnar er að flýta fyrir tollfgreiðslu sendinga til að tryggja öryggi póstflutninga á sjó, landi og lofti eða með vísan til allsherjarreglu.

Íslandspóstur ohf. fékk leiðbeinandi svar frá Persónuvernd árið 2015 vegna áforma um að skiptast á rafrænum tollupplýsingum við erlend póstfyrirtæki og við embætti tollstjóra. Þar var sérstaklega bent á að æskilegt væri að skýr heimild til flutnings slíkra upplýsinga úr landi væri fyrir hendi í póstlögum. Afar brýnt er því að sett verði í lög um póstþjónustu ákvæði sem heimila að senda og taka við rafrænum skeytum með tengiupplýsingum um sendanda, viðtakanda og innihald póstsendinga. Skortur á slíkri heimild fyrir póstsendingar úr landi gæti leitt til þess að póstur frá Íslandi sætti miklum töfum í móttökulandi og yrði jafnvel stöðvaður. Þá flýta slík skeyti fyrir skráningu og vinnslu póstsendinga sem koma til landsins, koma í veg fyrir að tvívinna þurfi skráningu og lækka þar með kostnað við meðferð þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.