149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. WOW air hætti starfsemi í síðustu viku og hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Afleiðingarnar af gjaldþrotinu eru margvíslegar og alvarlegar fyrir þúsundir einstaklinga og fjölskyldna. Það á eftir að koma í ljós hve mikil áhrif gjaldþrotið mun hafa á rekstur sveitarfélaga, útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðasjóðs launa og efnahags- og atvinnulífið almennt, ekki síst ferðaþjónustuna í landinu. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að WOW air hefur átt í miklum erfiðleikum um langa hríð. Sá sem hér stendur hefur t.d. lagt fram tvær fyrirspurnir til hæstv. samgönguráðherra sem varða reglur Isavia um lendingargjöld, innheimtu þeirra og skuldasöfnun flugfélaga við Isavia, fyrst í október á síðasta ári og aftur í nóvember sama ár. Tilgangur þeirra var að reyna að varpa ljósi á hvort einstök flugfélög væru að safna upp óeðlilegum skuldum við Isavia. Erfitt reyndist að fá skýr svör, m.a. vegna þess að ekki væri heimilt að gefa upp skuldir einstakra viðskiptavina. Þá fengust engar upplýsingar vegna ársins 2018.

Í öðru svarinu kom hins vegar fram að skuldir sem voru komnar fram yfir gjalddaga höfðu aukist um tæpan milljarð milli áranna 2016 og 2017, úr 786 milljónum í 1,7 milljarða.

Herra forseti. Í fjölmiðlum hefur komið fram að skuldir WOW við Isavia séu a.m.k. 1,8 milljarðar kr. Isavia hefur þó ekki staðfest þá tölu svo ég viti né heldur neitað. Spurningin sem verður að svara er sú hvort það sé eðlilegt að ríkisfyrirtæki á borð við Isavia leyfi slíka skuldasöfnun, hvaða áhrif það hefur á samkeppni og jafnræði flugfélaga, en síðast en ekki síst hvort rekstrinum hafi verið haldið áfram óeðlilega lengi með aðstoð (Forseti hringir.) ríkisfyrirtækisins Isavia. Var það vilji eiganda Isavia sem erum við sjálf?