149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Fréttir næturinnar, um að búið sé að aflýsa verkföllum, eru góðar. Þær veita vissulega von um að hægt sé að minnka óvissu fyrir einstaklinga, fjölskyldur, lítil fyrirtæki og stór. Ábyrgðin á samningum er að sjálfsögðu hjá aðilum vinnumarkaðarins og þeir standa að mínu mati undir henni. Ríkissáttasemjari hefur tekið vel utan um samningsaðila og haldið þeim við efnið.

Það er ávallt fagnaðarefni þegar sést í land með kjarasamninga, sér í lagi þegar þeir fela í sér sanngjarnar launahækkanir, skynsamlegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og möguleika, ekki síst fyrirtækjanna til að halda áfram að efla sig og styrkja. En mikilvægast er þó að stöðugleika sé ekki ógnað með tilheyrandi samfélagskostnaði til skemmri og lengri tíma — og ég ætla að leyfa mér að ganga út frá því að út frá þessu sé gengið.

Engin ástæða er til að ætla annað en að á þessum tímapunkti geri ríkisstjórnin það sem þarf til að dæmið hjá aðilum vinnumarkaðarins gangi endanlega upp. Við í Viðreisn höfum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir margumrætt skattaútspil sitt. Það var mislukkað og gekk fyrst og fremst út á málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna sjálfra í stað þess að einblína á lausn kjaradeilunnar. Það bað enginn um þetta, sagði einn forystumaður í verkalýðshreyfingunni. Ákallið frá verkalýðshreyfingunni var hins vegar að tryggja skattaumbætur fyrir fólk með lágar tekjur og millitekjur, ekki fyrir hátekjufólk eins og útspil ríkisstjórnar Vinstri grænna fól í sér. Þótt þetta útspil hafi síðan ekki verið beint til þess fallið að liðka fyrir viðræðum og jafnvel dregið þær á langinn ætla ég að ganga út frá því að hægt verði að klára kjaraviðræður. Boltinn er hjá ríkisstjórninni og við í Viðreisn munum að sjálfsögðu styðja hana til skynsamlegrar niðurstöðu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara fram á meira í þessari viku en að ríkisstjórnin hafi plan um það hvernig hægt verði að nálgast niðurstöðu kjarasamninga, hafi plan um það hver aðkoma hennar verður að kjarasamningum þessa vikuna. Ég ætla ekki að biðja um meira en ég ber þá von í brjósti.