149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og ágæta ræðu. Það er ljóst, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að við þurfum að bregðast við hæstaréttardómnum og þeim ávirðingum sem á okkur hafa komið í kjölfarið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Í ljósi þess að við afnám frystiskyldunnar, sem kveðið er á um í frumvarpinu, má gera ráð fyrir að innflutningur á fersku kjöti muni aukast. Í fyrsta lagi langar mig til að fá fram hjá ráðherra hvort lagt hafi verið mat á það hversu mikil aukning verði á innflutningi. Einnig hvort lagt hafi verið mat á það í því ljósi, þ.e. í ljósi aukningar á neyslu, hvort líkur á sýklalyfjaónæmi muni aukast þess vegna, þ.e. vegna aukningar á neyslu. Þá eru fleiri tækifæri til að neyta afurðanna af því að við vitum að ákveðinn þröskuldur er fyrir marga neytendur að borða kjöt sem hefur verið fryst. Það er einhvers konar mýta, skulum við segja, að ófryst kjöt sé miklu betra en frosið. En allt í góðu með það.

En gera má ráð fyrir að neysla muni aukast. Spurningarnar eru því þessar: Hefur verið lagt mat á hversu mikið neyslan eykst? Hefur verið lagt mat á það hvort sú neysluaukning muni hafa áhrif á tíðni eða líkur á sýklalyfjaónæmi?