149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er svolítið athyglisvert, sem hv. þingmaður nefndi, að settar yrðu svo háar girðingar að ekki væri hægt að komast yfir þær. Það væri ágætt að fá nánari útfærslu á því hvort það sé kannski stefna stjórnarmeirihlutans að reyna að girða þetta af. Hvaða afleiðingar hefur það þá gagnvart Evrópusambandinu sem sækir þetta mál fast?

Nú er mjög skammur tími þar til þetta á að taka gildi, sem er 1. september nk. Í ljósi þessarar aðgerðaáætlunar, og sérstaklega þegar kemur að því að skima fyrir kampýlóbakter, er náttúrlega um mjög viðamikla aðgerð að ræða og tæpast hægt að ætlast til þess að búið sé að koma öllum þessum aðgerðum í gang á þetta skömmum tíma. Telur hv. þingmaður þá ekki eðlilegt að farið sé fram á viðbótarfrest, sérstaklega í ljósi þess að ekki er það langt síðan þessi dómur féll og Bændasamtökin leggja áherslu á að sótt verði um frest? Ég spyr ekki síst í ljósi þess að ég efast um, og það er kannski ágætt að fá það fram frá hv. þingmanni, að þessar mótvægisaðgerðir verði allar tilbúnar þegar þetta á að bresta á hér á haustmánuðum.