149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Verði þetta mál samþykkt erum við, þingið, að búa til það sem mætti kalla hinn fullkomna storm fyrir íslenskan landbúnað. Greinin var í talsverðum rekstrarvanda fyrir. Þetta er nr. 1.

Nr. 2. Það hafa verið lagðar á greinina sífellt meiri og stöðugt nýjar kvaðir sem henni er ætlað að uppfylla. Margar hverjar dýrar og margar hverjar samkeppnishamlandi þegar greinin er að keppa við risabú í útlöndum sem fylgja ekki í öllum tilvikum — og kannski í fæstum — þeim skilyrðum sem íslenskur landbúnaður þarf að lúta.

Nr. 3. Það var gerður tollasamningur við Evrópusambandið sem var, ólíkt því sem gefið var til kynna þegar samningurinn var kynntur, mjög óhagfelldur Íslandi.

Nr. 4. Það liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að það er aðeins ein stétt á Íslandi sem getur vænst viðvarandi kjararýrnunar, samkvæmt áætlunum ríkisins, um fyrirsjáanlega framtíð, næstu fimm árin, og það eru bændur. Því að alls staðar annars staðar er gert ráð fyrir verulega auknum framlögum til að standa undir launakostnaði og öðru því sem ríkið þarf að standa straum af, mikilvægum hlutverkum ólíkra stétta og ólíkra verkefna á Íslandi. Alls staðar nema í landbúnaði er gert ráð fyrir auknum framlögum. Í landbúnaði er gert ráð fyrir stiglækkandi framlögum.

Svo er nr. 5. Það sem ríkisstjórnin, og að því er virðist stjórnarmeirihlutinn allur, ætlast til að við samþykkjum nú er að opna fyrir innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Með þessu væri ekki aðeins verið að bæta við þá efnahagslegu ógn sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir heldur væri verið að skapa nýja og mjög umtalsverða ógn við heilbrigði íslenskra manna og dýra.

Það er lýsandi fyrir þetta mál hversu lítið samráð stjórnvöld hafa talið ástæðu til að hafa, við til að mynda Bændasamtök Íslands — eins og þau kvarta undan í áliti sem þau hafa skilað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Það er ljóst að verði þessar breytingar að lögum má gera ráð fyrir því að matarsýkingum fjölgi umtalsvert og sýklalyfjaónæmar bakteríur berist til landsins. Eins og bent er á í áliti Bændasamtakanna hefur ekki verið neinn raunverulegur ágreiningur um hin vísindalegu rök fyrir því að viðhalda óbreyttri stöðu hvað þetta varðar. Það má einfaldlega gera ráð fyrir að hingað berist ýmis óværa í auknum mæli. Sem er ekki bara synd, það er söguleg skömm ef því verður leyft að gerast. Því að við eigum hér alveg einstaklega heilnæma matvælaframleiðslu, búfjárstofna sem að einhverju leyti hafa búið við einangrun í hátt í 1200 ár og aldrei komist í snertingu við sjúkdóma sem eru þó landlægir í Evrópu.

Þetta eru ekki bara sjúkdómar sem valda miklum búsifjum í Evrópu, þetta eru líka sjúkdómar sem teljast jafnvel ekki hættulegir þar en myndu vera mjög hættulegir okkar stofnum, sem eru ekki — og bara alls ekki — vanir að fást við slík smit. Íslenskir bændur hefðu ekki aðgang að tryggingarsjóði til að bregðast við þessu á sama hátt og evrópskir bændur. Hvers vegna skyldi þessi tryggingarsjóður vera til staðar? Jú, vegna þess að þetta er viðvarandi vandamál í Evrópu þar sem rekinn er landbúnaður á allt öðrum forsendum en hér á Íslandi.

Það að ætla íslenskum bændum, um leið og skórinn kreppir, að keppa á þessum forsendum, keppa við verksmiðjubú í útlöndum sem nota jafnvel sýklalyf til að geta haft dýrin við allt aðrar aðstæður en við myndum telja ásættanlegt hér — það er ekki hægt að ætlast til þess af þessari undirstöðuatvinnugrein Íslendinga. Grein sem hefur í fyrsta lagi haldið lífinu í landsmönnum frá landnámi en er líka undirstaða byggðar í stórum hlutum landsins. Ef hún verður fyrir frekari skakkaföllum, ég tala nú ekki um eins umfangsmiklum og þetta mál gefur til kynna, yrði tjónið svo miklu víðtækara en eingöngu hjá þeim sem starfa við greinina beint, þó að það sé nú nógu alvarlegt í sjálfu sér.

Það hafa borist ýmsar ábendingar um ágalla á þessu máli og ég er ekki viss um að mér gefist tími til að fara yfir þær í þessari fyrstu ræðu minni. Ég ætla fyrir vikið að biðja forseta að skrá mig nú þegar aftur á mælendaskrá en halda mig við það sem mætti kalla stóru myndina í þessari fyrstu ræðu.

Stóra myndin er sú að hér er um að ræða fullveldismál. Eitt af þessum málum sem varða grundvallarhagsmuni íslensks samfélags til allrar framtíðar. Maður skyldi ætla að við þær aðstæður væru stjórnvöld reiðubúin að beita sér til fulls. En það hafa þau ekki gert í þessu máli, eins og kemur glögglega fram í áliti Bændasamtakanna, sem hafa verið illa upplýst um gang mála og efast um að til að mynda hæstv. utanríkisráðherra hafi af nokkrum krafti leitast við að fá undanþágu frá þessum dómi EFTA-dómstólsins sem svo mikið er vísað í. Ég tek undir þær efasemdir, því þau skilaboð sem við höfum fengið frá stjórnarflokkunum, og enduróma nú í þessari umræðu, eru öll á þann veg að við eigum í rauninni ekki annan kost en að gefast upp.

En þetta mál er af þeirri stærðargráðu að við getum ekki leyft okkur að gefast upp. Ég tek undir með Bændasamtökunum að eðlilegt næsta skref sé að gera Evrópusambandinu það ljóst að við förum fram á — og það eru sterk rök fyrir því — undanþágu frá þessum dómi EFTA-dómstólsins. Á meðan þær diplómatísku, pólitísku viðræður standa yfir bíðum við með afgreiðslu þessa máls. Það er a.m.k. ljóst að við getum ekki leyft okkur að samþykkja það.

Því að hættan er einfaldlega það mikil, hvort sem litið er til rekstrargrundvallar þessarar mikilvægu atvinnugreinar eða lýðheilsu í landinu.

Eins og ég nefndi hér áðan, frú forseti, rekja Bændasamtökin í áliti sínu ýmsa galla á málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Svör stjórnarliðsins virðast engu að síður öll vera á þann veg að þau hafi setið uppi með þetta, fengið þetta í fangið eftir niðurstöðu dómstóla að einhverju leyti, og að öðru leyti eftir svör Evrópusambandsins.

Það leiðir óneitanlega hugann að næsta máli á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn sem er innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Á sama tíma og þau birtast hér og segja okkur að það sé bara ekkert í málinu að gera, við höfum talið að það væru undanþágur hérna en Evrópusambandið segi bara nei, ætla þau að reyna að telja okkur trú um að við getum samþykkt þennan þriðja orkupakka af því að um leið ætlum við að samþykkja sjálf einhliða einhverjar undanþágur í þingsályktunartillögu.

Þetta væri auðvitað ekkert annað en kostulegt, virðulegur forseti, ef þetta væri ekki svona dapurlegt. Að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem á sama tíma og kemur fram í svona mikilvægu grundvallarhagsmunamáli þjóðarinnar og segir bara: Því miður, við héldum að það giltu þarna undanþágur en þær gilda greinilega ekki, segir Evrópusambandið — segir við okkur að við þurfum ekki hafa neinar áhyggjur af þessum orkupakka vegna þess að við ætlum að biðja um undanþágur. Þetta er allt á sömu bókina lært, virðulegur forseti. Þetta mál, verandi spurning um þessa undirstöðuatvinnugrein og raunar um fullveldi landsins líka, kallar á viðbrögð í samræmi við það.

Talandi um undanþágur var það áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þm. Haraldar Benediktssonar hér áðan, að finnskir bændur hefðu talið sig hafa fengið 114 undanþágur þegar samið var um inngöngu Finnlands í Evrópusambandið. Það hefði ekkert verið gert með þessar undanþágur. Eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson orðaði það hefði þeim verið sópað út af borðinu af Evrópusambandinu eins og dauðum flugum.

Þarna fannst mér glitta aðeins í gamla, góða hv. þm. Harald Benediktsson. Því miður kláraði hann svo ræðu sína á að lýsa, að því er virtist, fullkominni tryggð við ríkisstjórnina. Og það er ekki annað að heyra af þeim ræðum sem hafa verið fluttar til þessa en að tryggð stjórnarliða, hvar í flokki sem þeir standa, sé miklu meiri við þessa ríkisstjórn og flokksforystu sína en við íslenskan landbúnað. Ég skal segja alveg eins og er, frú forseti, það veldur mér vonbrigðum.

Ég taldi að í þessu máli mundi fólk standa í lappirnar, ekki bara gagnvart Evrópusambandinu heldur líka gagnvart eigin flokkum. Þó ekki væri nema í ljósi fyrri yfirlýsinga úr stjórnarflokkunum öllum.

En það eiga fleiri eftir að tala hér í dag og í kvöld og við skulum sjá hvað setur. Vonandi verða einhverjir tilbúnir til að standa á fyrri prinsippum hvað þetta mál varðar.

Ég ætla hérna undir lokin, frú forseti, að vitna í orð sem höfð voru eftir Henry Kissinger sem var m.a. utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann mun hafa sagt: Þeir sem stjórna fæðuframboðinu stjórna fólkinu. Þeir sem stjórna orkunni geta stjórnað heilu heimsálfunum. Og þeir sem stjórna fjármagninu stjórna heiminum.

Nú blasir það við okkur að ríkisstjórn Íslands er að ná alslemmu, fullu húsi. Hún hefur áður gefið allt eftir gagnvart vogunarsjóðum í New York og London, fallist á kröfur þeirra, m.a. um losun hafta af svokölluðum aflandskrónum. Hún hefur kynnt að til standi að færa að verulegu leyti yfirráð yfir íslenskum orkumálum til evrópskrar stofnunar. Og nú ætlast hún til að við lúffum fyrir Evrópusambandinu í því mikla lífsspursmáli sem matvælaframleiðsla okkar er.

Þessi ríkisstjórn hefur á undraskömmum tíma gefið eftir varðandi fæðuframboðið, og þá að einhverju leyti yfirráð yfir fólkinu, varðandi orkuna, og þá kannski yfirráð yfir heilu heimsálfunum eins og stefnt er að í Evrópu varðandi orkulöggjöfina þar, og varðandi þeim erlendu fjármagnsöflum, sem a.m.k. að mati Henry Kissinger ráða heiminum.

Þetta höfum við fengið nú þegar frá þessari ríkisstjórn og sýnir okkur það í fyrsta lagi að ríkisstjórnin er ekki tilbúin að standa almennilega í lappirnar til að verja grundvallarhagsmuni Íslands. Þetta sýnir okkur um leið að þessi mál, hvort sem það er orkupakkinn eða fjármálakerfið eða það sem við erum að ræða nú, eru fullveldismál. Þau snúast um að við höfum vald yfir okkar eigin örlögum. Og þegar um fullveldismál er að ræða verða menn að standa í lappirnar.