149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hef tekið þátt í þessari umræðu frá upphafi og komið hér nokkrum sinnum og tekið til máls. Þingmenn hafa misjafnar skoðanir á þessu máli og umræðan hefur verið málefnaleg að því leytinu til, en hún tók hins vegar algerlega nýja stefnu með ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, sem segir það að við þingmenn Miðflokksins tölum um málið af léttúð, þjóðernispopúlisma og lýðskrumi.

Nú vil ég benda hv. þingmanni á að í málflutningi mínum vísaði ég í umsagnir sem hafa borist frá Bændasamtökunum, Landssambandi sauðfjárbænda, Landssambandi kúabænda og fleirum. Þetta var megininntakið í málflutningi mínum og vísaði ég auk þess í greinargerðir vísindamanna hvað þetta varðar.

Ég vil þá bara spyrja hv. þingmann að því hvort umsögn Bændasamtaka Íslands varðandi þetta mál sé lýðskrum? Er umsögn Landssambands sauðfjárbænda lýðskrum og popúlismi? Er umsögn Landssambands kúabænda, þjóðernispopúlismi og lýðskrum? Og má sama segja um Samtök mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja? Er málflutningur allra þessara aðila lýðskrum, hv. þingmaður?