149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum alls konar skyldur, við sem erum hér á þingi og erum fulltrúar þjóðarinnar, m.a. til að uppfylla okkar alþjóðaskuldbindingar, ekki síst þær sem skipta okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli. Við höfum líka þær skyldur að standa vörð um íslenska náttúru, að standa vörð um íslenskan landbúnað, styðja hann eins og best verður á kosið og halda vel utan um neytendur. Það er vel hægt með þessari leið sem hér er kynnt til sögunnar. Ég vara við því að menn noti hér stóryrtar yfirlýsingar — ég fæ oft á tilfinninguna að þær séu eingöngu settar fram til þess að valda hræðslu, valda úlfúð, valda óöryggi. (Gripið fram í.) Það er oft tilfinningin þegar hlustað er á þessar ræður. Þannig að ég vara við því og þess vegna fagna ég því að þetta er málefnalegt innlegg hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stútfullt af upplýsingum, svörum einmitt við þeim ræðum. Þessi svör komu líka fram fyrr í dag, við þeim ábendingum sem hafa verið settar fram.

Við höfum verk að vinna í atvinnuveganefnd. Það er eitt og annað sem þarf að fara gaumgæfilega yfir, sjá hvort við getum stutt betur við eftirlitshlutverkið, við upplýsinga- og neytendaverndina sem þarf að koma mjög skýrt fram í frumvarpinu og við förum að sjálfsögðu í þá vinnu. En þessum dómi EFTA-dómstólsins þurfum við að sjálfsögðu að hlíta, eins og við gerðum á sínum tíma með Icesave.