149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[21:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Spurt er hvaða valkostir voru skoðaðir. Þeir eru tilgreindir í áliti starfshóps lögfræðinganna. Þetta eru í grundvallaratriðum þrjár meginleiðir. Allir þeir valkostir sem til skoðunar voru byggðu á núverandi lagaverki. Með öðrum orðum gaf ég starfshópnum ekki fyrirmæli um að skoða hugmyndir sem ekki lágu fyrir óútfærðar heldur um að byggja fyrst og fremst vinnu sína á gildandi laga-og regluverki sem hefur gilt um slíkar veiðar í allnokkur ár.

Staða smábáta í frumvarpinu er sú hin sama og annarra sem hafa veiðireynslu í þessari fisktegund. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að aflahlutdeildum verði úthlutað á grunni veiðireynslu þeirra skipa sem sótt hafa í stofninn á tímabilinu 2008–2018, að báðum árum meðtöldum, en þó er heimilt að sleppa einu ári úr.

Hvaða varðar sjónarmið sem einstakir þingflokkar stjórnarinnar hafa í þeim efnum eru þau misjöfn og talar hver fyrir sig í því. Frumvarpið er stjórnarfrumvarp og hefur farið í gegnum þingflokka stjórnarinnar. Þau efni sem ég man sérstaklega eftir í viðræðum við þingmenn úr röðum Vinstri grænna snúa að heimildum smábáta og hvernig þeim verði tryggð staða í þessum veiðum á komandi árum. Að öðru leyti treysti ég þingmönnum Vinstri grænna til að tala sjálf fyrir sjónarmiðum sínum við meðferð málsins.