149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[21:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert verið að festa varanlega í sessi þær aflahlutdeildir sem um ræðir frekar en aðrar aflahlutdeildir í fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi. Þær eru ótímabundnar hins vegar. Það liggur alveg skýrt fyrir að Alþingi getur hvenær sem er breytt lögum í þá veru að breyta úthlutun veiðiheimilda, eins og við erum raunar að gera með því frumvarpi sem liggur fyrir.

Það ber að undirstrika að sú hugmyndafræði sem þetta byggir á er í rauninni sú hugmyndafræði sem er í lögum um fiskveiðistjórn á Íslandi í dag. Það er ekki samkomulag um neina umturnun á því fyrirkomulagi sem er í gildi, aflamarkskerfinu og veiðistjórninni sem í því er. Ég þekki alveg hugmyndir sem fram hafa komið, m.a. í umræðu okkar um álagningu veiðigjalds eða breytingunum á því, það eru ólík sjónarmið uppi í því hvernig við ætlum að taka á aflamarkskerfinu.

Eins og undirstrikað er í frumvarpi sem hluti stjórnarandstöðunnar er kominn fram með tengt úthlutun í makríl er það engum vafa undirorpið að Alþingi getur sett ný lög um úthlutun aflahlutdeildar án þess að það komi til skaðabótaskyldu og annað. Það liggur fyrir og er meira að segja undirstrikað í greinargerð með frumvarpinu sem kemur væntanlega til umræðu í þingsal innan tíðar. Auðvitað eru skiptar skoðanir milli stjórnarflokkanna um útfærslu ýmissa mála en á þeim grunni sem ég hef rakið og gert grein fyrir í framsöguræðu, á þeim grunni sem þessi þriggja manna sérfræðingahópur lagði upp með, á þeim grunni er þetta frumvarp byggt.