149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst að ég og hv. þingmaður erum ósammála um þetta mál. Ríkið semur fyrir hönd þjóðarinnar væntanlega, ekki fyrir hönd útgerðarmannanna. Ríkið semur um aflakvóta fyrir hönd þjóðarinnar. Mér finnst það réttlátt að bjóða hann út. Ég vitnaði hér áðan í hæstaréttardóma þar sem það er skrifað niður að auðvitað getum við, löggjafinn, gert hvað sem við viljum varðandi breytingar á þessum lögum, fyrnt og endurúthlutað og boðið út og gert það sem okkur þykir skynsamlegt að gera.

Já, ég er alveg sannfærð um að þeir sem eru með góða veiðireynslu og tæki og tól þeir bjóða það sem þeir treysta sér til að greiða fyrir kvótann, sem væri ígildi veiðigjalds. Og já, mér finnst það réttlátt, þegar ríkið semur fyrir hönd þjóðarinnar, og þegar fiskurinn er innan okkar lögsögu er það algerlega augljóst, að bjóða út aflaheimildir. Það á auðvitað ekki að rífa þetta allt upp á einni nóttu heldur gera þetta með aðlögun sem gæti jafnvel tekið 20 ár, 15–20 ár. Þá um leið værum við að búa til réttlátara kerfi og auka möguleikana á nýliðun í greininni, ásamt því að greinin greiðir veiðigjald sem hún telur sig ráða við, eftir því hver staðan er hverju sinni.