149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þessarar ræðu aðeins skoða forsögu þessa máls, nánar tiltekið orkupakka eitt, og hvaða afleiðingar hann hafði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Fróðlegt er að skoða í þessu samhengi bréf frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu frá því í febrúar 2001 í aðdraganda nýrra raforkulaga sem fólu í sér innleiðingu á orkupakka eitt.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í iðnaðarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til raforkulaga. Í því er m.a. kveðið á um aðskilnað samkeppnis- og einokunarþátta í rekstri raforkufyrirtækja þannig að framleiðsla og sala verður aðskilin frá flutningi og dreifingu. Við það er miðað að félagslegum skyldum verði aflétt af raforkufyrirtækjum.“

Hvað þýddi það að félagslegum skyldum var aflétt af raforkufyrirtækjunum? Jú, það mátti ekki lengur niðurgreiða framkvæmdir við afskekkta bæi. Evrópusambandinu hugnaðist það ekki og stjórnmálamenn hér heima samþykktu möglunarlaust, þjakaðir af óttablandinni virðingu fyrir embættismannakerfinu í Brussel. Ekki var farið fram á neinar undanþágur frekar en fyrri daginn.

Þessir orkupakkar hafa allir stefnt í þá átt að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu og í framhaldinu einkavæðingu orkunnar, fyrst með því að greina í sundur framleiðslu, dreifingu og sölu og nú síðast hvað varðar sjálft eignarhaldið: Frá og með þriðja orkupakkanum skal það ekki vera á sömu hendi.

Þá spyr maður sig: Verður Landsvirkjun skipt upp og virkjanir einkavæddar? Er verið að búa í haginn fyrir það? Rétt eins og salan á Hitaveitu Suðurnesja til erlendra aðila með skúffufyrirtæki í Svíþjóð. Salan á Hitaveitu Suðurnesja er stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið á Íslandi, allt í boði Sjálfstæðisflokksins.

Skoðum annað bréf, bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 20. ágúst 2001. Þar er fjallað um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar. Þar segir:

„Hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtæki veita nú afslátt af raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.

„Þá mun breytt skipan orkumála sem unnið er að líklega kalla á breytingar á þessum reglum.“

Orkufyrirtækin veittu afslátt á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Hér segir ráðuneytið í bréfinu að líklega muni það breytast. Þeir höfðu svo sannarlega rétt fyrir sér en vissu ekki hvað þeir voru að innleiða. Orkufyrirtækjum sem höfðu niðurgreitt rafmagn var bannað að gera það.

Gott dæmi er frá Suðurnesjum en þar niðurgreiddi Hitaveita Suðurnesja sérstaklega rafmagn til húshitunar á köldum svæðum á Suðurnesjum. Orkupakki eitt bannaði það. Þetta hafði þær afleiðingar á rafmagn til húshitunar hækkaði á einni nóttu um tugi prósenta fyrir þessi heimili.

Hvað kom einhverjum embættismönnum í Brussel það við að orkufyrirtækin á Íslandi niðurgreiddu rafmagn til húshitunar hér á landi? Við eigum auðlindina, við búum hér, við ráðum því hvernig við nýtum auðlindina. Við áttum að ráða því hvernig við stóðum við bakið á þeim sem ekki höfðu hitaveitu. Enginn annar.

Nei, stóri bróðir í Brussel hafði talað og litlir stjórnmálamenn á Íslandi þorðu ekki fyrir sitt litla líf að mótmæla.

Sagan er að endurtaka sig hér á Alþingi í dag, nú með innleiðingu þriðja orkupakkans. Næst verður það væntanlega kalda vatnið. Brussel mun örugglega fara að skipta sér af því hvað við komum til með að nota mikið af köldu vatni.

Með innleiðingu orkupakka eitt var raforka á Íslandi í fyrsta skipti skilgreind sem markaðsvara. Í okkar litla samfélagi leiddi þessi uppskipting orkugeirans til meiri yfirbyggingar og dýrara kerfis, m.a. með því að aðskilja vinnslu og dreifingu á rafmagni. Þetta varð sem sagt til þess að verð á flutningi á rafmagni til heimila og fyrirtækja hækkaði.

Athygli vakti að Vinstri grænir voru á móti þessum orkupakka hér á Alþingi og vildu ekki markaðssetningu á raforku þjóðarinnar. Þeir geta verið stoltir af þeim málflutningi. Það vekur hins vegar óneitanlega undrun að nú skuli þeir styðja að við opnum fyrir eina allsherjarmarkaðsvæðingu á raforkunni okkar. Þeir voru á móti orkupakka eitt og tvö. Hvað hefur breyst? Eru þeir að þóknast Sjálfstæðisflokknum? Gefa þeir eftir hugsjónir sínar fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Er VG orðinn markaðshyggjuflokkur?

Athyglisvert er að skoða greinargerðina með orkupakka eitt og þá sérstaklega hvað varðar 1. gr.. Þar segir að lágmarkskröfur tilskipunarinnar séu uppfylltar en auk þess sé gengið lengra en tilskipunin krefst á sumum sviðum

Í orkupakka eitt gengum við sem sagt lengra en við þurftum að gera. Er þá bara ekki hugsanlegt að við séum að ganga lengra en við þurfum að gera í orkupakka þrjú? Ef hér gerist ekkert af því að það er ekki sæstrengur, hvers vegna þarf þá að vera að standa í þessu? Mun Brussel ekki sýna því fullan skilning?

Það er mikið áhyggjuefni hvaða áhrif þetta mál kemur til með að hafa á stöðu Landsvirkjunar. Verður það þannig að hún verður bútuð niður og einstaka virkjanir síðan seldar? Hvernig á t.d. að mæta garðyrkjubændum? Orkupakki þrjú mun leggja bann við að þeir fái niðurgreidda raforku. Samkvæmt orkupakka þrjú er slitið á öll tengsl stjórnmálamanna við orkugeirann sem hér eftir skal rekin á markaðsforsendum og öll lýðræðisleg inngrip bönnuð.

Komið er á fót yfirþjóðlegri stofnun, ACER, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði með aðsetur í Slóveníu. Stofnun sem á að fylgjast með því að þessu verði framfylgt. Hún mun hafa úrskurðarvald í deilumálum sem kunna að verða í viðskiptum yfir landamæri og gefur hún auk þess út fyrirmæli um hvernig viðskiptum verði háttað á öllu svæðinu. Nákvæmlega hið sama gerðist með lagabreytingum um innflutning á hráu kjöti. Þeir vísindamenn sem mest mark er á takandi sökum þekkingar sinnar og rannsókna vara við innflutningnum. Brussel kemur það hins vegar ekkert við, né dómstólum sem dæma samkvæmt reglum þar um. Markaðurinn einn skal ráða.

Mikilvægt er í þessari umræðu að skoða ólíkar aðstæður í orkumálum hér á landi og í Evrópusambandinu. Orkuverð í Evrópusambandinu er hátt en á Íslandi er það lágt. Skortur er á raforku í Evrópusambandinu en á Íslandi er nóg af raforku. Óstöðugt verðlag ríkir á raforkumarkaði í Evrópu en hér á landi búum við við stöðugt verðlag á raforku. Síðast en ekki síst snýr raforkumarkaðurinn í Evrópu að 28 ríkjum og 500 milljón íbúum en hér á landi er markaðurinn mjög lítill í þeim samanburði, eða um 340.000.

Aðstæður í orkumálum í Evrópusambandinu eru því gjörólíkar aðstæðum hér. Við sjáum það að hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins í orkumálum fara ekki saman. Hér á landi eru 90% af virkjununum í eigu hins opinbera, þ.e. sameign þjóðarinnar. Orkupakki þrjú felur í sér að löggjafar, framkvæmdar- og dómsmál í orkumálum, flyst úr landi þegar sæstrengur verður að veruleika og hann mun verða að veruleika. Upplegg ríkisstjórnarinnar í þessu máli er að banna sæstreng til Evrópu til að geta samþykkt þriðja orkupakkann. En hvers vegna að undirgangast stjórnunarvald Evrópusambandsins á raforkumarkaði í okkar litla landi þegar bannað verður að tengjast honum? Þessu verður ríkisstjórnin að sjálfsögðu að svara.

Þessi hringlandaháttur er viðhafður einungis af ótta við að við verðum kærð. Látum bara á það reyna og tökum á málinu fyrir sameiginlegu EES-nefndinni. Það er rétti vettvangurinn, ekki bara að samþykkja málið möglunarlaust. Því má ekki gleyma í þessari umræðu að 80% landsmanna eru á móti framsali valds í orkumálum og á það á að sjálfsögðu að hlusta. Ef við berum saman hvaða hag við höfum orkupakka þrjú annars vegar og hins vegar hvaða hag Evrópusambandið hefur af því að við innleiðum orkupakka þrjú blasir hið augljósa við. Það er hagur Evrópusambandsins að við innleiðum þennan orkupakka.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er búinn. Ég mun halda áfram í næstu umferð og (Forseti hringir.) óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.