149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna er mikið talað um undanþágur. Mig langar að hafa það svona í tvennu lagi, annars vegar undanþágur varðandi hvað gerist hérna innan lands, og svo hins vegar hvað sæstrenginn varðar og milliríkjasamskiptin.

Ég ætla aðeins að hunsa það því að við erum ekki með sæstreng og höfum engan áhuga á að fá sæstreng, það er gjörsamlega tilgangslaust að fá þann sæstreng.

En ef við innleiðum þennan þriðja orkupakka og förum að biðja um einhverjar undanþágur frá honum, umfram þessar gastillögur sem við erum með undanþágu frá, af hverju ættum við að fá undanþágur frá t.d. neytendavernd, auknu gagnsæi og sjálfstæðu eftirliti eða þessum auknu kröfum um aðskilnað milli framleiðslu og dreifingu? Því þegar allt kemur til alls eru það þessi þrjú atriði sem þriðji orkupakkinn bætir við núverandi stöðu. Þá erum við ekki að tala um fyrsta og annan orkupakkann, við erum bara að tala um það sem við bætum við með þriðja orkupakkanum.

Hvað er það sem er í honum, af þessu sem ég taldi upp, neytendavernd, gagnsæi, sjálfstætt eftirlit og auknar kröfur um aðskilnað milli framleiðslu og dreifingu, sem við þurfum að fá undanþágur frá?