149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að hann sagðist ekki hafa neitt umburðarlyndi fyrir skoðunum Miðflokksins. Ég verð að lýsa undrun minni á þeim málflutningi hjá hv. þingmanni. Við erum á löggjafarþingi þjóðarinnar og þingmenn hafa misjafnar skoðanir og hv. þingmaður verður bara að sætta sig við að menn hafi ekki sömu skoðun og hann. Ég undrast ummæli hv. þingmanns.

Ég vil koma aðeins að því að Noregur er tengdur við meginlandið með sæstrengjum en norska verkalýðshreyfingin óttast að þriðji orkupakkinn muni leiða til hærra orkuverðs. Það er staðreynd að þegar Noregur tengdist sæstreng hækkaði orkuverðið í landinu til heimilanna. Norski Verkamannaflokkurinn, sem er systurflokkur Samfylkingarinnar, samþykkti þriðja orkupakkann með átta fyrirvörum og meðal þeirra er að þjóðin hafi óskorað yfirráð yfir vatnsauðlindinni, norsk stjórnvöld skulu hafa sjálfstæða stjórn hvað allar ákvarðanir er snerta orkuöryggi varðar, ákvarðanir er tengjast iðnaði og orkuskiptum, hugsanlegir nýir sæstrengir skulu vera ábatasamir og opinbert eignarhald á norskum vatnsauðlindum skal ekki breytast og vera a.m.k. að 2/3 hlutum í opinberri eigu. Þarna eru ýmsir athyglisverðir fyrirvarar sem norski Verkamannaflokkurinn setur við að samþykkja þennan orkupakka.

Ég vil spyrja hv. þingmann og formann Samfylkingarinnar: Mun Samfylkingin sitja hjá í afgreiðslu þessa máls eins og hún gerði hvað varðar orkupakka eitt og tvö? Mun Samfylkingin hafa fyrirvara við (Forseti hringir.) samninginn, þ.e. þingsályktunartillöguna, eins og norski Verkamannaflokkurinn?