149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá hló marbendill. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég er þokkalega læs og ég get útvegað honum afrit af því sem ég las upp áðan úr þessum niðurstöðum. Það er eitt sem hv. þingmaður klikkar á eins og fleiri hér í dag: Ég er ekkert að tala um sæstreng og það er enginn að tala um sæstreng. (WÞÞ: Nú?) Það er verið að tala um að við missum til yfirþjóðlegrar stofnunar yfirráð yfir verðlagningu og fleira sem skiptir máli.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji enga áhættu í því fólgna að setja ekki alvörufyrirvara við 7., 8. og 9. gr. í reglugerð Evrópusambandsins, nr. 713/2009, það sem Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, eru að tala um á bls. 42 og 43 í álitsgerð sinni. Þó að búið sé að víkja því til hliðar um stund, eins og þeir segja, út af því að við ætlum ekki að tengjast beint með sæstreng að sinni, þá er það ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að þeir tala um að ef 8. gr. reglugerðar 713/2009 verður tekin upp og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd muni reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda.

Ég spyr bara aftur: Hvar er lýðskrumið í þessu? Hvar er þvælan í þessu? Og er ekki rétt að við hlustum á okkar færustu sérfræðinga eins og hv. þingmaður lagði reyndar til í ræðu sinni áðan? Ég lít ekkert (Forseti hringir.) á þessar niðurstöður manna sem hlaðborð, að maður taki bara það sem gott (Forseti hringir.) þykir. En ég segi: Hvernig eigum við að fara fram hjá þessum varnaðarorðum, hv. þingmaður?