149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Verið er að brjóta stjórnarskrána — ég las upp allar þær forsendur í áliti Stefáns Más sem hann gefur eftir á fyrir þeirri lausn sem valin var. Ég las það hérna staf fyrir staf, næstum því, með leyfi forseta, og allar þær forsendur sem hann gefur sér. Ég spurði einfaldlega: Ef þessar forsendur standast ekki, ef þessar forsendur bresta, hvernig má þá skilja þau orð sem ég las þarna upp? Þú getur lesið mína ræðu þegar hún kemur út í prenti og lesið þetta bara yfir sjálf. Þetta er einfaldlega það sem Stefán Már prófessor leggur til með þeirri leið sem stjórnvöld í landinu hafa valið. Það er bara einfaldlega þannig.

Það eru margir fyrirvararnir og margar forsendurnar sem þurfa að standast. Ég las þær hérna upp áðan og ætla ekki að fara að þreyta ykkur á því að lesa þær aftur upp, en vil hnykkja á einu vegna þess að hv. þingmaður talaðir um sæstrenginn. Ég nefndi hann aldrei. En hér segir:

„Grunnforsenda [þessarar lausnar] er sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri …“

Grunnforsendan er sú fyrir því að þessi lausn gangi upp, að pakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að gera þetta.

Þá segi ég: Ef þessi forsenda stenst ekki, ef það kemur einhver og vill gera þetta, leggur þá pakkinn, regluverkið, þessar skyldur á okkur. Það er það sem ég er að benda á. Það er spurning mín til þeirra sem mæla fyrir þessu máli og vonandi fer það í meðferð þingsins í nefndum.