149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þetta andsvar. Ég verð að segja að ég hlakka mjög til að heyra ræðu hans á eftir þar sem hann útskýrir hvers vegna þriðji orkupakkinn er ekki samur og hann var. Ég mun hlusta með mikilli athygli á mál hans.

Hvað er það sem segir að við séum að leggja frá okkur völd á auðlindum okkar? Ég vil enn vitna til Stefáns Más Stefánssonar, prófessors emeritus, en á bls. 42 í álitinu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 tekin upp í EES-samningsins og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd mun reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda.“

Þetta er algerlega ljóst. Og síðan bætir hann við, eins og ég las áðan, að þetta sé á mörkum þess að standast stjórnarskrána. Það er áhyggjuefnið.

Áhyggjuefnið er líka það sem frændur okkar Norðmenn hafa sent okkur og sýnt okkur þar sem fram kemur mjög greinilega að þeir telja að verið sé að afsala sér u.þ.b. 2/3 af þeim áhrifum sem Norðmenn höfðu áður í eigin orkumálum. Það hræðir okkur.

Ég fagna því hins vegar mjög að hv. þingmaður skuli lýsa stuðningi við okkur Miðflokksmenn í málinu. Ég þekki hv. þingmann af því að vera skynsaman mann og ég efast ekki um að þegar hann gaumgæfir þetta mál enn frekar, og ég hlakka til að hlusta á hann styðja það, mun hann koma til liðs við okkur í því.