149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka mjög fyrir þetta andsvar sem veitir mér kærkomið tækifæri til að upplýsa það að ég veit að á Eyjafjarðarsvæðinu m.a. er þegar mikill orkuskortur og hefur verið lengi. Það er svo merkilegt að frá því að Blönduvirkjun tók til starfa árið 1992 hefur hún aldrei gengið á fullum afköstum vegna þess að það hefur ekki verið hægt að færa frá henni orku, þ.e. austur frá Húnavatnssýslu austur í Eyjafjörð. Þetta er mér vel kunnugt um.

Ég er hins vegar að tala um allt aðrar línulagnir, hv. þingmaður. Mér er ljúft að segja frá því. Það er fáum meira áhugamál en þeim sem hér stendur að það hefði verið fyrir löngu, löngu síðan verið búið að ganga þannig frá að lína milli Blöndu og t.d. til Akureyrar hefði komist á koppinn og að Blönduvirkjun hefði verið keyrð með fullu afli. Við erum að tala um 30 ár. Ég er hins vegar að tala um norðausturlínu, nýsetta á dagskrá. Ég er að tala um hana. Ég er ekki að tala um línu sem ætti að fæða Eyjafjarðarsvæðið allt. Alls ekki. (NTF: Hvaða línu ertu að tala um?) Ég er að tala um línu sem hefur ýmist verið kölluð norðausturlína eða Kröflulína. Hún er austan Akureyrar. Ég bið þingmanninn að virða það við mig að hafa lesið fréttir um það. Ef hann hneykslast gríðarlega þá hljóta þær frásagnir að hafa verið rangar.

Ég ítreka það við hv. þingmann að mér er vel kunnugt um að það er varla hægt að setja upp dekkjaverkstæði á Akureyri núna vegna raforkuskorts. Ég lýsti því einmitt áðan hvað ég teldi að gera ætti til að koma í veg fyrir það og til að bæta þar úr. Því fer fjarri að ég sé að tala fyrir einhverju orkusvelti fyrir Eyjafjarðarsvæðið. (Forseti hringir.) Því fer algerlega fjarri.