149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því ef hv. þingmaður vill ræða við mig um þetta mál, tek því mjög fagnandi og er eiginlega ber að því að taka leiðbeiningum frekar ljúflega og vel enda veitir mér ekki af. Mér þykir leitt að hafa æst hv. þingmann svona upp fyrir svefninn, því í öllu þessum málum sem við höfum rætt hér á þriðja sólarhring hefur mér síst verið hlátur í huga. Við erum að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir í öllum þessum málum, nema þessu máli hérna sem ég skil ekki. Þess vegna biðst ég undan því að vera sakaður um einhverja léttúð, ég biðst undan því. Ég fer ekki ofan af því að það eru fregnir af því að burðargeta Norðausturlínu sé umfram þarfir, og ég er ekki að tala um það sem hv. þingmaður er að brytja hér ofan í mig, ég er að tala um að burðargetan eins og henni var lýst í norðausturlínunni er umfram það sem við þurfum. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur bara hlegið að mér eins og hann vill fyrir það, en við þurfum þá hreinlega að taka þá umræðu í betra tómi og fara gaumgæfilega yfir hana. En að láta sér detta í hug að ég sé að tala niður Norðurland og á Eyjafjarðarsvæðið, það er fjarri öllu lagi, ég biðst undan því.