149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[20:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ræðuna. Hér liggur fyrir frumvarp, þetta eru litlar 49 blaðsíður og fyrir er þessi málaflokkur brjálæðislega flókinn. Það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra er: Er einhver leið að einfalda þetta? Er eitthvað í þessu frumvarpi sem auðveldar þeim sem takast á við þessi verkefni að gera það með sómasamlegum hætti?

Hæstv. ráðherra nefndi líka að til stæði að fara í heildarendurskoðun á lögunum og taka skipulagslögin undir þar. Ég styð það heils hugar og held reyndar, virðulegur forseti, að það sé mjög mikilvægt. Ég verð að viðurkenna að það er í rauninni mín tilfinning eftir að hafa meira en 10 ára reynslu af því að vera formaður skipulagsnefndar og takast á við skipulagslögin og oft líka mat á umhverfisáhrifum að þetta er svolítið kerfi fyrir sérfræðingana og kerfin. Þegar vinna þarf mat á umhverfisáhrifum þá leita sveitarfélögin eða þeir aðilar sem ætla að fara í þessar framkvæmdir til sérfræðinga og oft verkfræðistofu sem skrifar rosalega langar skýrslur. Ég er auðvitað hlynnt því að leggja mat á umhverfisleg áhrif. Kerfið sem við sjáum fyrir okkur er þannig að almenningur geti raunverulega haft skoðun á málunum og komið henni á framfæri og að við leggjum í raun mat á það hvaða áhrif framkvæmd hefur. Ég velti því stundum fyrir mér hvort meiningin sjálf týnist í öllu þessu risakerfi.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi: Er einhver von um að á þessum 49 blaðsíðum séum við að einfalda kerfið, auðvelda það, gera það skýrara fyrir þá sem eru að vinna með það og ekki síst fyrir almenning sem vill hafa skilning og geta haft skoðanir á því sem um er að vera?