149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[20:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Herra forseti. Í reynd þá eru flest þau atriði sem hér eru til umfjöllunar einmitt frekar til einföldunar en hitt. Ég vil nefna sem dæmi að þegar ráðist er í umhverfismat framkvæmdar fyrir tiltekna framkvæmd þar sem líka þarf að breyta t.d. deiliskipulagi þá má gera eina skýrslu um framkvæmdina og skipulagsbreytinguna. Það er mjög til bóta að spara þannig bæði tíma og fjármagn við gerð umhverfismats og það sama gildir þegar það er lagt til kynningar fyrir almenning og hagsmunaaðila.

Þarna er verið að skýra ýmis ákvæði, m.a. að skýra betur að það þurfi að vera fagþekking til staðar bæði hjá framkvæmdaraðila og hjá Skipulagsstofnun, sem ég held að sé til bóta að hafa skýrt í lögunum. Hér var spurt: Týnist meiningin stundum? Við erum með langar skýrslur sem unnar eru af verkfræðistofum, oft mjög vel unnar og enginn efast um það, virkilega góð vinna. En það er einmitt tekið fram í frumvarpinu að framkvæmdaraðilanum ber, verði þetta að lögum, að gera útdrátt, og nú ætla ég að orða þetta þannig, á mannamáli. Með fullri virðingu fyrir því hvernig texti er fram settur þá á þetta að vera sett fram á skýran og aðgengilegan hátt fyrir almenning.

Ég tek undir þessi atriði sem hv. þingmaður nefndi og snúa að akkúrat þessu máli. En ég tel að margt þarna, þótt frumvarpið sé mörg orð, sé einmitt til einföldunar og veit að þetta verður einnig tekið fyrir í heildarendurskoðuninni.