149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[20:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svarið við spurningunni um hvort ástæða hafi verið til að leggja þetta fram núna er já, annars væri ráðherrann ekki að gera það. En til að rökstyðja mál mitt þá vil ég benda á að hér er um innleiðingu Evróputilskipunar að ræða sem tók gildi 16. maí 2017, það eru tvö ár síðan. Við vitum að endurskoðun laga og lagasmíð getur stundum tekið lengri tíma en við ætlum okkur, þannig að ég sá mér ekki fært annað en að leggja þetta fram. Þetta er þá líka hreint innleiðingarmál. ESA er með mál gegn íslenska ríkinu út af þessu innleiðingarmáli, þannig að þetta er alveg klárt og ég stend við það að hafa lagt málið fram núna. Ég held að ekkert mæli í raun gegn því, þó svo að vissulega megi benda á að þar sem búið var að ákveða að fara í heildarendurskoðun hefði verið heppilegt að gera það allt í einu, ef út í það er farið. En það var mikilvægt að koma þessu frá.

Svo vil ég taka undir með hv. þingmanni að þátttaka almennings fyrr í ferlinu er mjög mikilvæg. Ég hef falið Skipulagsstofnun að ráðast í verkefni á grundvelli framfylgdar Árósasamningsins með framkvæmdaraðilum og félagasamtökum til að reyna að þróa verklag sem geti einmitt stuðlað að þessari þátttöku fyrr í ferlinu. En almennt séð er eitt af markmiðunum með heildarendurskoðuninni að reyna að gera ferli mats á umhverfisáhrifum skilvirkara, en á sama tíma að tryggja þátttökuréttindi almennings samkvæmt Árósasamningnum.