149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[20:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og framsögu hans.

Mitt erindi hér er mjög einfalt. Ég spyr í tengslum við 11. gr. sem fjallar um breytingu á 12. gr. núgildandi laga. Við erum hér að innleiða Evrópurétt, eins og hefur verið til umræðu nokkuð í öðru máli undanfarna daga. Spurningin er: Á að setja tímamörk, gildismörk, á mat á umhverfisáhrifum og þá hver eiga þau að vera?

Ráðherra rakti það áðan að í frumvarpinu, eins og það var lagt fram á 148. þingi, var reiknað með að gildistíminn yrði fimm ár. Ég kalla það gildistíma. Nú eru það sjö ár. Ég tel að það sé ágæt málamiðlun, ég hefði stutt árin fimm, en miðað við þær athugasemdir sem hér er sagt frá varðandi þetta ákvæði tel ég að þetta sé góð málamiðlun.

Mín spurning er einfaldlega: Hvað verður um gildistíma laganna um mat á umhverfisáhrifum sem þegar liggja fyrir? Munu þau, eftir gildistöku þessara laga sem eiga að taka gildi strax samkvæmt lokagreininni, lúta 10 ára reglu eða sjö ára reglu?