149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkisvaldið, framkvæmdarvaldið, fer og á að fara með ákveðið eftirlitshlutverk, hvort heldur er með rekstri fyrirtækja eða hegðun okkar einstaklinganna. Til þess erum við t.d. með lögregluna.

Mín helsta gagnrýni þegar kemur að eftirlitsstofnununum, og ég er að tala um þær almennt þó að ekki gildi það sama um þær allar, er á þá tilhneigingu þeirra að vera fremur í því að reyna að ná mönnum, ná þeim sem þeir hafa eftirlit með og refsa þeim en að sinna leiðbeiningarskyldu. Ég veit t.d. að fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum lítur á það sem miklu mikilvægara hlutverk að leiðbeina mönnum á fjármálamarkaði en að vera að finna óheiðarlega skúrka sem stunda fjármálaviðskipti, þ.e. þeir eru í því að reyna að tryggja heilbrigði markaðarins. Þess vegna fara þeir inn í banka eða inn í verðbréfafyrirtæki og segja við viðkomandi: Heyrðu, vinur, þetta gengur ekki alveg hjá þér. Það hvernig þú stundar þessi viðskipti er ekki alveg eins og við viljum hafa það, gengur gegn heilbrigðum viðskiptaháttum. Þú verður að lagfæra þetta. Viðkomandi lagfærir það og úr því verður til heilbrigðari fjármálamarkaður. Ef viðkomandi heldur hins vegar uppteknum hætti er hann tekinn.

Ég held að það sé svo mikilvægt að við förum að líta á eftirlitsstofnanir og hlutverk eftirlitsstofnana ekki til þess endilega að hanka menn (Forseti hringir.) heldur til að leiðbeina mönnum um hvernig eigi að stunda heiðarleg og heilbrigð viðskipti, herra forseti.