149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í kvöld fyrir frumvarpi til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Frumvarpið er afrakstur endurskoðunar gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008. Reglulega hefur verið boðað á þingmálaskrá ríkisstjórna frá 143. löggjafarþingi að stjórnarfrumvarp um endurskoðun laganna verði lagt fram. Af því hefur þó ekki orðið fyrr en nú, en frá og með haustbyrjun 2018 hefur verið unnið skipulega að endurskoðun laganna í nánu samstarfi við háskóla sem annast menntun kennara, stéttarfélög kennara, skólastjórnendur og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Tilefni þessarar lagasetningar er að gildandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnendur við leik- og grunnskóla og framhaldsskóla hafa ekki stuðlað að æskilegu flæði kennara milli skólastiga eins og áform voru um, auk þess sem skilin á milli skólastiga sem tilgreind eru í leyfisbréfum kennara hafa því miður haldið aftur af starfsþróun kennara og staðið í vegi fyrir samfellu í námi. Gert er ráð fyrir að breytingarnar sem frumvarpið felur í sér leiði til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga, hvatningar til starfsþróunar, að gæði menntunar og fjölbreytileiki verði meiri auk þess sem stuðlað verði að bættu starfsöryggi kennara. Væntingar eru til þess að breytingarnar fjölgi starfsmöguleikum kennara og gerir starfið eftirsóknarverðara og því fjölgi hæfu fólki í kennarastétt.

Markmið frumvarpsins er að þeir sem sinna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstörfum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum landsins hafi menntun og hæfni í samræmi við störf þeirra og ábyrgð. Samkeppnishæfni þjóða má að hluta rekja til menntunarstigs. Kennarar eru lykilstarfsmenn menntakerfisins. Þeir leiða breytingar til umbóta og auka gæði í skólastarfi. Fjölgun á hæfum kennurum mun þannig styrkja samkeppnishæfni landsins. Brýnt er að hér verði stór hópur kennara sem býr yfir hæfni til að takast á við framtíðaráskoranir sem blasa við næstu ár og áratugi en hæfi kennara á öllum skólastigum er meginforsenda þess að sú framtíðarsýn verði að veruleika.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum þar sem lögð er rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur mikilvægi þess að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Jafnframt er lögð áhersla á að bregðast við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga en nýverið voru kynntar aðgerðir til að fjölga kennurum sem unnar voru í víðtæku samráði við hagsmunaaðila.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu sem samið er í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru lagðar til nokkrar meginbreytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu nýmæli þar sem lagt er til að lögfestur verði hæfnirammi um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda. Hæfniramminn veitir betri leiðsögn en fyrri lög gerðu um inntak kennaramenntunar og skilyrði fyrir leyfisbréfi. Ramminn nýtist einnig sem grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs og til leiðsagnar um starfsþróun, endurmenntun og ráðningu kennara. Í velflestum löndum Evrópu eru hæfnirammar fyrir kennarastarfið á grunn- og framhaldsskólastigi gefnir út af yfirvöldum menntamála. Lögfesting hæfniramma á Íslandi er því í takt við alþjóðlega þróun.

Í öðru lagi er lagt til að í stað þriggja leyfisbréfa kennara, eitt fyrir hvert skólastig, verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu sem felur í sér staðfestingu á almennri og sérhæfðri þekkingu, leikni og hæfni sem kennarar skulu búa yfir. Eitt leyfisbréf dregur fram viðurkenningu á kennarastarfinu, á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Ákvæði um eitt leyfisbréf er þannig ætlað að leysa úr ákveðnum ágalla í gildandi lögum sem snýr að því hvaða stöðu kennari, sem hefur fengið útgefið leyfisbréf til kennslu á tilteknu skólastigi og heimild til kennslu á aðliggjandi skólastigi, hefur haft við ráðningu í kennslustarf.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að lögfesta kennararáð sem verður samstarfsráð um málefni kennara og skólastjórnenda og starfsþróun þeirra. Áður hefur verið starfandi samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda en nýtt kennararáð mun hafa fjölbreyttara starfssvið. Því er m.a. ætlað að veita ráðgjöf og leiðbeiningar um þróun og útfærslu hæfnirammans og starfsþróun kennara með alþjóðlega þróun í huga.

Í fjórða lagi er í frumvarpinu lagt til að mat á umsóknum um leyfisbréf og útgáfu þeirra færist frá mennta- og menningarmálaráðherra til Menntamálastofnunar en áfram verði heimilt að fela þeim háskólum sem annast menntun kennara að gefa út leyfisbréf til þeirra kennaranema sem þeir útskrifa. Þá er einnig lagt til að Menntamálastofnun gefi út undanþágur til ráðningar leiðbeinanda í grunn- og framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að skipuð verði ein undanþágunefnd í stað tveggja áður. Þessar breytingar eru taldar leiða til aukinnar skilvirkni, meiri fagmennsku í umsýslu leyfisbréfa og stuðla að auknu réttaröryggi borgara sem geta með breytingunni kært ákvörðun um undanþágur og útgáfu leyfisbréfa til mennta- og menningarmálaráðherra.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að verði þetta frumvarp að lögum taki þau gildi 1. júlí 2019. Frá sama tíma falla úr gildi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008. Hvað varðar tillögu um gildistöku er lagt til að nemendur sem innritast í kennaranám frá og með skólaárinu 2020 til ársins 2021 eigi að útskrifast af námsbrautum skipulögðum samkvæmt frumvarpi þessu. Jafnframt beri háskólum sem bjóða upp á nám til kennsluréttinda að hafa að leiðarljósi hagsmuni kennaranema sem hófu nám fyrir gildistöku laganna og veita þeim tækifæri á að útskrifast af þeirri námsbraut sem þeir innrituðust á eins og kostur er.

Áður útgefin leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- eða framhaldsskólum munu með gildistöku þessara laga uppfylla skilyrði fyrir leyfisbréfi samkvæmt þessum lögum með sérhæfingu á því skólastigi sem fyrri kennsluréttindi þeirra tóku til.

Framangreindar breytingar eru allar liður í að greiða fyrir fjölbreyttri starfsþróun kennara, flæði kennara milli skólastiga og auknu starfsöryggi þeirra. Jafnframt eru væntingar um að breytingar muni auka líkurnar á því að kennarastarfið verði metið verðmætara en nú er og kennaranemum fjölgi, fjölbreytileiki verði meiri þar sem menntað fólk með víðtæka reynslu og menntun muni sækja í kennarastarfið og afla sér kennsluréttinda.

Íslenskt menntakerfi þarf að búa nemendur þessa lands undir líf og störf í síbreytilegu samfélagi og skapa þeim jöfn tækifæri til menntunar. Hæfir kennarar á öllum skólastigum eru forsenda þess að sú framtíðarsýn verði að veruleika.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.