149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

vandaðir starfshættir í vísindum.

779. mál
[14:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að tala hér sem bæði þingmaður og raunvísindamaður um þetta frumvarp og vísindasiðanefnd og annað sem það felur í sér. Það er þannig að nútímavísindastörf á Íslandi hafa verið við lýði í langan tíma, við getum auðveldlega sagt í eina öld eða meira, og þá á ég við vísindastörf á okkar mælikvarða. Niðurstöður úr vísindarannsóknum skipta þjóðfélagsframvinduna gríðarlegu máli, eiginlega vægt sagt. Við getum rætt um verklegar framkvæmdir. Hvar væru þær án vísindarannsókna, húsamyglan sem hér var rædd, stjórnmálin? Ég hygg að við kæmumst skammt án vísindalegra niðurstaðna. Menningin, bókmenntafræðin, svo að ég taki einhver dæmi, þekking og menntun almennt, heilbrigði og lýðheilsa — allt þetta er byggt meira eða minna á vísindalegum grunni.

Það er þannig að vinnubrögð vísindamanna sjálfra skipta gríðarlegu miklu máli, sumir segja öllu máli. En það er líka hvernig gögn og niðurstöður vísindamanna eru notuð af öðrum, t.d. af okkur stjórnmálamönnum. Þegar allt kemur til alls ráða vísindamennirnir sjálfir litlu um það hvernig þessi gögn eru oftast notuð, ekki alltaf en oftast, en þeir ráða þeim mun meira yfir eigin vinnubrögðum og eigin siðræna mati á vinnunni í ljósi þess menningarheims sem vísindamennirnir tilheyra og hann er ólíkur frá einum heimshluta til annars, getum við sagt.

Og hvað á ég þá við þegar ég tala um siðrænt mat? Ég á við hlutlægni vísindamannanna. Ég á við þrotlausa leit að staðreyndum og ég á við virðingu fyrir þeim siðrænu gildum sem ríkja í samfélaginu, hvort sem þau varða t.d. mannréttindi, heiðarleika eða mannúð.

Herra forseti. Vísindin eru vissulega af mörgum toga. Stóra skiptingin í raunvísindi og hugvísindi er jafnvel fljótandi á jöðrunum og jafnvel því meir sem nútíminn skríður fram. Oft eru mælanlegu og sannanlegu gildin og gögnin og túlkanirnar nærtækari í raunvísindaheiminum, en engu að síður ber að gera sömu siðrænu kröfur til allra geira vísindanna innan þessara tveggja sviða.

Ég fagna þessu frumvarpi og tel að fyrir alllöngu, ef við miðum við þessa öld sem ég var að ræða um eða jafnvel lengra, hafi verið kominn tími til að vinna að lögum sem þessum. Ég ætla að færa þakkir jafnt til hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsætisráðherra og allra þeirra sem komu að smíði þessa frumvarps og munu koma að afgreiðslu þess hér á Alþingi vegna þess að ég hef fulla trú á því að hún verði þverpólitísk. Þannig er þetta mál.