149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

vandaðir starfshættir í vísindum.

779. mál
[14:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tek undir með fyrri ræðumanni, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, þegar ég færi forsætisráðherra þakkir fyrir að koma með þetta mál hingað inn í þingið. Ég held að það sé vel þess virði fyrir okkur í þinginu að velta þessum málum fyrir okkur. Það er rétt sem fram hefur komið að margvísleg siðferðisleg álitamál tengjast vísindastarfsemi í landinu, bæði innan háskólasamfélagsins en líka á vettvangi atvinnulífsins.

Ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem fær málið til meðferðar en ég vildi aðeins velta þeirri spurningu upp hér í umræðunni, sem ég krefst engra svara við, hvorki frá hæstv. forsætisráðherra né öðrum, þ.e. hvort lagasetning af þessu tagi sé endilega leiðin í þessu sambandi. Markmið vísindastarfs er auðvitað það að leita sannleikans í einhverjum málum og þegar tekið er á málum af þessu tagi má segja að áhrifaríkasta leiðin til að fletta ofan af misferli í vísindastarfsemi eða öðru slíku er auðvitað að afhjúpa falsanirnar eða blekkingarnar eða hvað það er. Ég veit ekki alveg hvort stofnanarammi af því tagi sem frumvarpið felur í sér sé réttari leiðin. Það kann að vera að svo sé og ég er ekki andvígur því að þetta sé skoðað. En ég velti því upp hvort við getum með einhverjum stofnanabundnum hætti náð utan um kjarna þess sem hér er um að ræða sem er heiðarleiki eða vandvirkni eða vandaðir starfshættir á vísindasviðinu.

Ég vildi bara velta þessu upp í umræðunni og ég játa að mér finnst heiti frumvarpsins stinga svolítið í stúf, þetta er frumvarp til laga um vandaða starfshætti í vísindum. Af hverju ekki bara frumvarp til laga um starfshætti í vísindum? Af hverju er verið að koma með gildishlaðin orð af þessu tagi eða hugtök inn í þessa umræðu? Ætlum við að láta önnur lög gilda um óvandaða starfshætti í vísindum eða eitthvað þess háttar? Ég velti þessu upp af því að ég held að þó að við séum öll sammála um markmiðin getum við haft mismunandi skoðanir á því hvernig við nálgumst viðfangsefnið.

En enn og aftur þakka ég hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja málið og tel að það sé vel þess virði fyrir okkur hér í þinginu, og ekki síst í allsherjar- og menntamálanefnd, að taka þetta til umræðu og reyna að átta okkur á því með hvaða hætti hægt sé að bregðast við, taka á óvönduðum vinnubrögðum eða fölsunum eða blekkingum eða öðru sem auðvitað er hætta á á sviði vísindastarfsemi eins og annars staðar í samfélaginu.