149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

vandaðir starfshættir í vísindum.

779. mál
[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér töluðu. Ég veit að þeir kölluðu ekki sérstaklega eftir svörum en fá þau samt óumbeðin.

Hv. þm. Birgir Ármannsson reifar hér gildishlaðið orðalag. Ég tel að þetta orðalag sé tiltölulega hlutlaust þegar við tölum um vandaða starfshætti í vísindum, miðað við t.d. það orðalag sem Norðurlöndin hafa valið, sem nefna sína löggjöf einfaldlega lög um óheiðarleika í vísindum. Kannski væri heiðarlegra að tala bara um það, lög um óheiðarleika í vísindum. Ég legg til að hv. þingmaður taki það til skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um málið, í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Síðan veltir hv. þingmaður hér upp spurningu sem er löngu orðin sígild þegar við ræðum um siðferðileg málefni, þ.e. hvort ekki sé eðlilegt að hver og einn einstaklingur beri ábyrgð á sínu eigin siðferði. En nú er það svo, og það þekkir hv. þingmaður mætavel, að mín afstaða, eins og komið hefur fram við ýmis mál, er sú að það sé einmitt ekki rétta leiðin að smætta siðferðileg vandamál niður í vanda einstaklinga, heldur skipti einmitt máli að taka á þeim málum með kerfisbundnum, stofnanabundnum hætti. Það er sú leið sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið. Það snýst um að skapa traust og trúverðugleika, hvort sem er í vísindum eða öðru, þ.e. að hafa einmitt þá stofnanauppbyggingu sem hægt er að treysta á, því að sú krafa mun alltaf koma upp.

Við getum rifjað upp að þegar plastbarkamálið kom upp endaði það á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Ég er mjög efins um að það sé rétti vettvangurinn til að takast á við slík mál, með fullri virðingu fyrir þeim góðu hv. þingmönnum sem þar sitja, þingnefnd sem á vissulega að hafa eftirlit með opinberum stofnunum. En er það eðlilegt að hún takist á við siðferðileg álitamál sem upp koma í vísindasamfélaginu? Ég er efins um það. Ég tel réttara að þau mál fari þangað sem þau eiga heima og hv. þingmenn og hv. þingnefndir séu ekki að gefa út álit um slík siðferðileg álitamál. Ég held að þetta væri framfaraskref.

Mér er kunnugt um þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifar hér og tel mikilvægt, svo ég segi það að lokum, að nefndin reifi þetta mál vel og vandi sig í umfjöllun sinni. Ég ítreka þó að ég held í ljósi aðdragandans — ég rakti hann ekki allan hér, því að hér hefur málið verið til umræðu á vettvangi Vísinda- og tækniráðs, a.m.k. síðan ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra árin 2009–2013 — sé þetta orðið tímabært skref.