149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn hér óska hæstv. ráðherra til hamingju með framlagningu þessa frumvarps og klappa í hljóði fyrir því. Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta mál sé komið fram. Við höfum svo sem rætt áður í þingsal um mikilvægi þess að þetta komi fram í tengslum við, að ég hygg, þingsályktunartillögu um lýðháskóla á Suðurlandi, hvort það var ekki hv. þm. Willum Þór Þórsson sem hóf þá umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum með fjölbreytileika í framboði á menntun.

Ég hef með samflokksþingmönnum mínum verið að ferðast um landið, í frægri hringferð. Við komum við á Flateyri um daginn og fengum mjög skemmtilega kynningu á lýðskólanum þar. Ekki var síst gaman að sjá og heyra frá fólkinu hvað það hefur mikil áhrif á byggðarlagið að þarna sé hópur af, ég ætla að segja ungu fólki, en það er reyndar fólk á öllum aldri, það eru kannski bara allir ungir þegar þeir eru í námi. Það hefur auðvitað rosalega mikil áhrif. Ég veit ekki hvort þetta er stærra skref í fjölbreytileika og menntastefnunni okkar eða í byggðamálum. Þetta er hvort tveggja og því mikilvægt.

Eins og fjallað hefur verið um í fyrri ræðum og hæstv. ráðherra kom örugglega inn á er líka mjög gaman að sjá þetta af því að hið hefðbundna menntakerfi okkar hentar ekki öllum og sumir verða utanveltu þar. Þá hafa lýðháskólarnir, eins og þeir voru lengi kallaðir á Norðurlöndum, oft hentað vel. En skólarnir eru ekki aðeins fyrir slíkan hóp, virðulegur forseti. Ég held að fjölbreytileikinn sé svo mikilvægur. Fólk kemur jafnvel inn í lýðskólana með háskólagráður, með fleiri en eina og fleiri en tvær á bakinu.

Þegar við erum að fara inn í breytta tíma í framtíðinni, inn í fjórðu iðnbyltinguna, með stöðugt fjölbreyttari kröfum um hæfni er mikilvægt að við höfum stöðugt tækifæri til að sinna endurmenntun og alls konar menntun og auka færni okkar.

Mig langaði aðeins að vitna í spá sem heitir, með leyfi forseta, The World Economic Forum, ég man ekki hvað það er í íslenskri þýðingu. Í henni er spáð fyrir um tíu helstu færni- og hæfnisþætti einstaklinga árið 2020 og þá er númer eitt að leysa flókin verkefni. Vissulega læra nemendur það almennt í skólum og háskólum en ekki síður í lýðskólum.

Gagnrýnin hugsun er hæfni númer tvö. Skapandi hugsun er komin í 3. sæti, var í 10. sæti þegar þau gerðu slíka spá fyrir einhverjum árum síðan. Margir lýðskólar snúast einmitt um skapandi hugsun. Þannig mætti lengi telja.

Ég held að við séum að stíga mikilvægt skref. Eins og fram hefur komið erum við með lýðskóla starfandi hér á landi og þá er mikilvægt að menntamálayfirvöld séu með það skýrt innan hvers konar ramma slíkir skólar eiga að starfa, alveg eins og aðrir skólar og fræðslustofnanir. Ég fagna þessu frumvarpi því mjög.

Ég ætla að koma aðeins inn á eitt. Við í þessum sal samþykktum, líklega á þarsíðasta þingi, þingsályktunartillögu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins þar sem við ályktuðum að skora á ríkisstjórnina að láta gera úttekt á því hvernig hægt sé með hagkvæmum hætti að stofna vestnorrænan eftirskóla. Hér er tiltekið á Grænlandi, í Færeyjum og á Íslandi. Við í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins höfðum samþykkt þetta á aðalfundi ráðsins. Þetta er upphaflega tillaga sem kemur frá Grænlendingum, sem höfðu lagt mjög mikið upp úr því. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég heyrði þetta vissi ég ekki alveg hvað eftirskóli þýddi en þetta kemur úr dönskunni, efterskole, og er í rauninni eins og lýðskóli fyrir börn eftir grunnskóla. Upprunaleg hugmynd þeirra er þannig og hefur þetta verið mikið notað bæði hjá Grænlendingum og Færeyingum og börn oft og tíðum farið til Danmerkur.

Þegar menntamálaráðuneytið svaraði Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins fyrir síðasta aðalfund fannst mér svör ráðuneytisins heldur rýr. Þau voru á þá leið að þetta væri svo sem ekkert stefnan og passaði ekki innan rammans. Ég sem þingmaður sem tók þátt í að samþykkja þessa þingsályktunartillögu var ekki alveg nógu ánægð með þau svör.

En mig langar að beina því til hæstv. ráðherra og ráðuneytisins að það gæti verið leið næst þegar ráðuneytið verður krafið svara um framvindu þessarar þingsályktunartillögu að vísa í það sem er að gerast í lýðskólamálum hér á landi. Ég heimsótti skólann á Flateyri og þau eru að velta fyrir sér námsleið í norðurslóðafræðum, sem mér finnst alveg ótrúlega spennandi og gæti fallið vel að þeim markmiðum sem Vestnorræna ráðið hefur verið að vinna að. Ég sé mikil tækifæri í því en það krefst þess að námið sé ekki aðeins á íslensku, hvort sem það er þá á ensku eða dönsku. Ég held að í því máli væri best að hafa það á ensku þar sem norðurslóðamál eru ekki einungis málefni okkar vestnorrænu landanna heldur líka annarra stórra ríkja. Af því að enska er alþjóðlegt mál færi eflaust betur á því nota hana.

Ég vil beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að dusta aðeins rykið af þessari þingsályktunartillögu og sjá hvort við getum unnið saman að því að þróa þá hugmynd út í einhvers konar lýðskóla sem myndi bjóða vini okkar frá vestnorrænu löndunum velkomna.

Ég held að ég hafi þetta ekki öllu lengra. Það er búið að koma inn á flest sem ég vil segja. Við erum öll voðalega jákvæð og ég geri ráð fyrir því að það sama verði upp á teningnum í nefndinni. En auðvitað þarf að fara yfir alla þætti.

Virðulegi forseti. Það er reyndar eitt sem mig langar að benda á. Í 7. gr. er talað um leiðbeinendur, að óheimilt sé að ráða þann til starfa við lýðskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum ákveðins kafla hegningarlaganna. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Ég geri ráð fyrir að þetta sé sama ákvæði og er í grunnskólalögum og framhaldsskólalögum og leikskólalögum. Ég hef reyndar velt upp hvort því ákvæði sé alltaf fylgt eftir og hvort nóg sé að segja bara í lögunum að afla megi sakavottorðs, hvort það sé eitthvert eftirlit með því að það sé alltaf gert. Ég læt þetta liggja, ef hæstv. ráðherra getur brugðist við því á einhvern hátt. Annars horfi ég líka á sérfræðinga úr ráðuneytinu. Það væri áhugavert að fylgja því eftir, að þetta sé ekki aðeins lagabókstafur heldur séum við með eftirlitið með því að það sé svo sannarlega þannig að sakavottorð einstaklinga liggi fyrir áður en þeir eru ráðnir til fræðslustofnana.