149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

sviðslistir.

800. mál
[17:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og hennar framsögu. Ég verð reyndar að viðurkenna að í fyrsta skipti sem ég sá þetta frumvarp velti ég fyrir mér hvort það væri mjög góð hugmynd að setja lög utan um sviðslistir, eins frábærar og þær eru. Er rétt að binda þær með einhverjum hætti í lög? En við lestur frumvarpsins er svo sem búið að sannfæra mig um að það kunni að vera alveg ágætishugmynd og þá sérstaklega út frá því að þarna sé verið að sameina aðra þætti.

Ég velti bara fyrir mér, virðulegur forseti, hvort við séum þá ekki með þessu frumvarpi á sama tíma að afnema önnur lög. Ef ég skil frumvarpið rétt erum við í rauninni að taka yfir lög sem í dag eru um a.m.k. Þjóðleikhúsið. Ég er mikil áhugamanneskja um að það sé hreinsað reglulega til í lagasafninu og velti fyrir mér hvort þessu frumvarpi hefði átt að fylgja brottfall einhverra annarra laga.

Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í 18. og kannski 19. gr., um kynningarmiðstöð sviðslista. Samkvæmt greininni er ráðherra gefin heimild til að koma slíkri stofnun á laggirnar eða eiga samstarf, fela einhverri stofnun slíkt. Ég sé í greinargerðinni að þarna er verið að vísa í aðrar stofnanir sem sinna öðrum listum. Það fyrsta sem mér datt í hug var Íslandsstofa og hlutverk hennar í því að koma á framfæri íslenskri menningu. Gæti hæstv. ráðherra aðeins farið yfir það hvað hún sjái fyrir sér í þessum efnum? Væri kannski góð hugmynd að sameina eitthvað af þeim (Forseti hringir.) miðstöðvum sem fjalla almennt um listir eða gæti Íslandsstofa sinnt þessu hlutverki?