149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

sviðslistir.

800. mál
[17:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og kannski sérstaklega það sem hún talaði um í lokin, þ.e. að efla skapandi greinar, sem ég held að sé mjög mikilvægt. Okkar helstu framtíðartækifæri felast einmitt í nýsköpun og skapandi greinum. Ég fagna því mjög ef ætlunin er að sameina þessar kynningarmiðstöðvar því að listir eiga í eðli sínu að vera flæðandi og ekki rammaðar inn í einhver box. Með því að vera að skipta þeim niður og ramma í ákveðin box er hætt við að við missum af einhverjum tækifærum í skapandi greinum.

Ég fagna því að það sé unnið að því og ítreka þá bara mikilvægi þess að — vegna þess að við fórum í gegnum þingið með frumvarp um Íslandsstofu þar sem var verið að reyna að taka til svolítið í þeim efnum — sú stofnun sé nýtt til hlítar og þess gætt að vera ekki að tvívinna hlutina einhvers staðar.

Ég er líka glöð að heyra að önnur lög falli þá úr gildi á sama tíma og bara ítreka að það gleymist ekki.

Í seinna andsvari langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra út í 19. gr. er lýtur að einhvers konar möguleika á óperustarfsemi. Þjóðleikhúsinu er ekki lengur falið það hlutverk að halda utan um óperustarfsemi. Sjáum við þá fyrir okkur að við setjum á laggirnar nýja stofnun sem heldur utan um Óperuna? Eða hvað sér ráðherra fyrir sér í þeim efnum?

Ég vil alls ekki að þetta hljómi eitthvað eins og ég sé á móti óperu, heilt ekki, heldur er ég kannski frekar að huga að því hvernig sé með sem skilvirkustum hætti best að halda utan um listir þannig að þær séu öflugar og að skapandi greinar geti blómstrað, bæði til að veita okkur ákveðna lífsfyllingu en ekki síður held ég að þar séu líka mikil tækifæri til útflutnings og til hagvaxtarauka, í því að efla skapandi greinar.