149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019--2022.

771. mál
[17:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum, samanber 5. gr. barnaverndarlaga.

Ég mæli nú fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar en sú áætlun sem hér er lögð fram nær til tímabilsins frá gildistöku hennar árið 2019 til sveitarstjórnarkosninga árið 2022. Félagsmálaráðuneyti, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga skulu vinna samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er sett fram með meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi og tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.

Eigi þessi markmið að nást er ljóst að tryggja þarf afdráttarlaust samstarf ýmissa kerfa sem eiga snertifleti við börn og fjölskyldur og veita börnum og fjölskyldum þeirra stuðning og aðstoð. Það þýðir líka að byrja þarf miklu fyrr en þegar þröskuldi til inngripa á grundvelli barnaverndarlaga er náð. Hagsmunir barna krefjast þess að horft sé heildstætt á öll kerfi sem reyna að vernda og þjónusta þau og fjölskyldur þeirra og að í forgangi verði ekki síst fyrirbyggjandi aðgerðir, forvarnir og valdefling foreldra og barna. Lækka þarf þröskuld til inngripa í því formi að efla stuðning í almennum þjónustukerfum, m.a. með ráðgjöf, stuðningi og kerfisbundinni skimun fyrir mögulegum vandamálum. Á þetta við um skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu, auk allrar annarrar þjónustu sem viðkemur börnum.

Það þarf að gera kröfu um skýra ábyrgð á samþættingu þjónustu og úrræða sem mikill vilji er fyrir innan ríkisstjórnarinnar og er hluti umfangsmikillar endurskoðunar á allri þjónustu við börn, þvert á kerfi og ráðuneyti, í samstarfi við þverpólitíska nefnd þingmanna. Til þessa var reynt að líta við ritun þessarar tillögu sem mælt er fyrir í dag. Félagsmálaráðuneytið mun hafa heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum en Barnaverndarstofa og sveitarfélög bera ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum. Allar aðgerðir hafa verið kostnaðarmetnar og gerð er grein fyrir þeim kostnaði. Lagt verður mat á aðgerðir í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar. Víðtækt samstarf verður haft við fag- og hagsmunaaðila um framkvæmd áætlunarinnar til að þekking og reynsla nýtist sem best en auk þess tekur framkvæmdaáætlunin mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að.

Framkvæmdaáætlunin tekur einnig mið af þeirri þróun sem orðið hefur í þjónustu við börn og í meðferðarúrræðum barnaverndar og leggur áherslu á samfélagsþátttöku barna.

Framkvæmdaáætlunin var unnin í víðtæku og góðu samráði við helstu hagsmunaaðila, m.a. um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Nefnd sú sem ritaði drög að áætluninni var skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, en einnig var byggt á tillögum frá ráðgjafarhópi nefndarinnar sem skipaður var til að tryggja að sem flest sjónarmið yrðu tekin til athugunar með aðkomu og samráði við hagsmunaaðila.

Virðulegur forseti. Tillagan sem ég mæli fyrir hér í dag felur í sér fjórðu framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd og með henni er blásið til stórsóknar í þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Áætlunin er metnaðarfull og hefur það að markmiði að efla stuðning barnaverndar á fyrstu stigum. Hún gerir ráð fyrir að efla grunnvinnslu barnaverndarmála svo hægt verði að koma í veg fyrir vandann eins fljótt og auðið er en að auki er með áætluninni fjölgað gagnreyndum úrræðum til að mæta þörfum barns áður en vandinn fær að þróast og verða alvarlegri. Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir aukinni samvinnu og samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga og lagðir eru til verulega auknir fjármunir, um 600 millj. kr., í málaflokkinn á tímabilinu og þeir fara í að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu, ekki síst í nærumhverfi barna.

Þessi framkvæmdaáætlun varðar barnavernd eins og hún er skilgreind í gildandi barnaverndarlögum og eru verkefnin afmörkuð samkvæmt því. Áætlunin og framkvæmd hennar skal þó unnin með þeim hætti að horft sé heildstætt á málefni barna. Tekið hefur verið tillit til þess í þeim tillögum sem hér eru settar fram. Áætlunin er ansi umfangsmikil en í henni er gert ráð fyrir að áhersla sé lögð á átta stoðir sem ég ætla að fara stuttlega yfir:

A. Samstarf og heildarsýn í málefnum barna. Mikilvægt er að þjónustukerfi sem vernda börn og veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu starfi saman með markvissum hætti, þvert á kerfin. Þannig verði hægt að bæta uppeldisaðstæður og líðan barna og mynda heildarsýn og samfellu í þjónustu. Ein stærsta áskorun hvað þetta varðar er að koma auga á vanda barna og fjölskyldna þeirra sem fyrst og að tryggja að brugðist sé við í þágu barns með viðeigandi stuðningi eða aðgerðum áður en vandinn fær að þróast og verða alvarlegri.

Þessa þjónustu og umgjörð þarf að tryggja öllum börnum á Íslandi, óháð búsetu, uppruna þeirra eða öðrum aðstæðum. Til að tryggja að slík heildarsýn náist er afar mikilvægt að starfandi sé stýrihópur fulltrúa þeirra ráðuneyta sem að málefnum barna koma. Slíkum stýrihópi hefur þegar verið komið á í samstarfi við sex ráðherra og hefur hann það hlutverk að tryggja kerfisbundna samhæfingu aðgerða, þvert á ráðuneyti og stofnanir, í þágu barna, auk þess að veita stuðning og eiga samstarf vegna vinnu þverpólitískrar þingmannanefndar um málefni barna um tillögur um breytingar á löggjöf, reglugerðum og framkvæmd og þá eftirlit með breytingum og innleiðingu.

Samkvæmt áætluninni skal þessi stýrihópur leggja fram á haustþingi Alþingis 2019 stefnu í málefnum barna þar sem litið verði heildstætt til hagsmuna barna og þjónustu við þau, þvert á kerfi og stofnanir, allt frá meðgöngu og þar til einstaklingurinn nær fullorðinsaldri.

B. Breytingar á barnaverndarlögum. Þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna fer með endurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga sem breyta þarf samhliða til að ná heildarsýn í málefnum barna. Við vinnuna verður stuðst við tillögur hóps sem vann að stefnumótun í barnavernd til ársins 2030 fyrir ráðuneytið. Markmiðið er að tekin verði þverpólitísk afstaða til breytinga á skipulagi og verklagi barnaverndarstarfs og eftir atvikum annarra stjórnvalda með hliðsjón af þarfagreiningu, álagsmati og með það í huga að tryggja gæði og jöfnuð í barnaverndarstarfi á landsvísu. Stefnt er að því að leggja fyrir Alþingi á haustþingi 2019 frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum og eftir atvikum öðrum lögum. Setningu og endurskoðun reglugerða á grundvelli endurbættra barnaverndarlaga verði lokið 2021 og innleiðing breytinga komin vel áleiðis árið 2022.

C. Snemmtæk íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir. Meðal þeirra atriða sem lögð er áhersla á í áætluninni er stórefling á innleiðingu foreldrafærniþjálfunar í barnavernd og innleiðing nýrrar meðferðar fyrir fjölskyldur á heimilum barna frá sex ára aldri sem búið hafa við ofbeldi og vanrækslu.

D. Stuðningur vegna barna á fósturheimilum. Til stendur að innleiða heildstæðan stuðning við börn í fóstri og fóstur- og kynforeldra þeirra með aðferðinni „KEEP/PTC“, með leyfi forseta, og með því að efla færni kyn- og fósturforeldra barna í tímabundnu og varanlegu fóstri draga úr hegðunar- og tilfinningavanda barna og auka líkur á að þau snúi til baka í öruggari aðstæður á heimili kynforeldra sinna.

E. Meðferð alvarlegs hegðunar- og vímuefnavanda. Árlega eru um 100 fjölskyldur sem glíma við vaxandi eða alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda sem nýta sér svokallaða MST-meðferð eða fjölkerfameðferð. Þjónustan er veitt á heimili fjölskyldunnar og hefur sýnt góðan árangur. Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir MST-meðferð, einnig á landsbyggðinni, og biðlistar hafa skapast. Það er í ljósi eðlis þjónustunnar mjög óæskilegt því að eitt meginmarkmið er að geta brugðist hratt við beiðni um viðeigandi þjónustu við barn og fjölskyldu á heimilum þeirra og í nærumhverfi áður en vandinn vex. Því er lagt til í framkvæmdaáætluninni að meðferðarteymum MST verði fjölgað og að þjónustan verði fest í sessi og gerð enn aðgengilegri á landsvísu.

Fleira er lagt til, m.a. innleiðing meðferðar á sérhæfðum einkaheimilum fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda. Þá er lagt til að töluvert fjármagn verði veitt í að bæta aðstoð og fjölga starfsmönnum á Stuðlum og bæta meðferð fyrir börn sem glíma við alvarlegan hegðunar-, vímuefna- og fíknivanda. Auk þess er nýtt meðferðarheimili sem staðsett verður í Garðabæ á áætlun. Undirbúningur er þegar hafinn og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

F. Bætt verklag í barnavernd. Með því að bæta verklag í barnavernd er gert ráð fyrir aðgerðum til að styrkja starf barnaverndarnefnda og tryggja nauðsynlega forgangsröðun verkefna. Unnt þarf að vera að meta og bregðast við álagi á starfsfólk í barnavernd með samræmdum hætti og að auka stuðning við starfsmenn barnaverndarnefnda með það að markmiði að styrkja starf þeirra. Mikilvægt er þá að tryggja að upplýsingar og skráningar hjá barnaverndarnefndum landsins séu aðgengilegar og samræmdar um land allt og að til sé einn gagnagrunnur yfir barnaverndarmál á landsvísu.

G. Kannanir, rannsóknir og gæðamat. Tilteknar kannanir og rannsóknir eru mikilvægar til að tryggja fullnægjandi skilvirkni og árangur innan barnaverndarkerfisins og varðandi þjónustu við börn. Lagt er til að gerð verði athugun á því hvernig sjá megi til þess að börn sem orðið hafa fyrir eða orðið vitni að heimilisofbeldi, líkamlegu og andlegu ofbeldi, fái sambærilega þjónustu og börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, þar með talin könnunarviðtöl í Barnahúsi. Einnig er lagt til að gert verði mat á árangri og könnun á afdrifum barna sem hafa fengið úrræði á vegum Barnaverndarstofu sem og mat á árangri og könnun á afdrifum barna í fóstri.

H. Eftirfylgni og innleiðing breytinga. Til að tryggt sé að þær umfangsmiklu og metnaðarfullu breytingar sem lagt er upp með verði að veruleika er mikilvægt að til staðar sé skipuleg eftirfylgni og innleiðing þeirra. Því er lagt til í áætluninni að það verði gert samkvæmt sérstakri innleiðingaráætlun stýrihóps Stjórnarráðsins í málefnum barna í samráði við þingmannanefnd í málefnum barna. Skal í lok stefnumótunar hvers liðar framkvæmdaáætlunar liggja fyrir áætlun um innleiðingu breytinga og að stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna fylgi þeim kerfisbundið eftir. Gera þarf ráð fyrir að næsta framkvæmdaáætlun muni miða að áframhaldandi innleiðingu breytinga samhliða því að meta hvort kerfis- og lagabreytingar skili þeim árangri sem þeim var ætlað og hvort þörf sé á endurskoðun vissra hluta þeirra eða innleiðingaráætlana.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2022. Ég leyfi mér að leggja til að lokum, virðulegur forseti, að þessari tillögu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. velferðarnefndar og þaðan til síðari umr.