149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:33]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra og starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir árlega skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál sem flutt er hér á þinginu og byrja á því að þakka starfsfólki ráðuneytisins fyrir óþreytandi vinnu sína um allan heim við að halda á lofti hagsmunum og málefnum Íslands og kynningu á íslenskri menningu í hvívetna. Hljótum við að kunna þeim miklar þakkir fyrir það.

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál og alþjóðamál er eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar á hverju yfirstandandi þingi þegar kemur að stefnumörkun og áherslum í utanríkismálum. Hún er líka kærkomið tækifæri til að auka veg utanríkis- og alþjóðamála hér í þingsal og eiga um þau skoðanaskipti. Það er eitthvað sem reglulega er kallað eftir af þingmönnum og fleirum.

Mig langar til að leggja áherslu á nokkur mál í skýrslunni, frú forseti. Fyrst má nefna mannréttindamálin, en þau eru afar fyrirferðarmikil í utanríkisstefnu Íslands, eða eins og segir í ríkisstjórnarsáttmálanum: „Utanríkisstefna Íslands byggist á skýrum viðmiðum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sjálfbæra þróun og friðsamlegar lausnir.“ Að auki bætist þarna við málefni hafsins, málefni norðurslóða og norrænt samstarf.

Sumir myndu segja að þetta væru afar opin markmið, áferðarfalleg, nokkuð laus í reipunum og lítt áþreifanleg og jafnvel sé um nánast enga stefnu að ræða heldur frekar fögur fyrirheit um áherslupunkta. Sumir fræðimenn hafa meira að segja talað opinskátt um það að stefna Íslands í utanríkismálum sé svolítið út og suður og það er að mörgu leyti rétt að mínu mati. Við þurfum að skerpa stefnu okkar í utanríkismálum. En hvaða möguleika á Ísland til að beita sér fyrir þessum viðmiðum á erlendum vettvangi í alþjóðastarfi? Að mínu mati eru kjöraðstæður akkúrat núna til að skerpa línur okkar í mannréttindamálum með afar dýrmætu sæti okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar með skipar Ísland sér í varðstöðu þjóða með mannréttindabaráttu um heim allan ef vel er haldið á spilunum.

Ég má til með að hrósa utanríkisráðherra og starfsfólki hans við mannréttindaráðið fyrir vasklega og afar góða framgöngu þar varðandi fordæmingu á mannréttindabrotum Sádi-Araba. Þetta var frábært dæmi þess að lítil þjóð getur haft áhrif og verið fordæmi fyrir stærri þjóðir. Það sama sáum við líka gerast þegar Ísland viðurkenndi fyrst Vesturlanda Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki árið 2012. Vonandi er ekki að verða nein stefnubreyting hjá núverandi ríkisstjórn varðandi málefni Palestínu eins og margir urðu uggandi yfir þegar Ísland sat hjá þegar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að fylgja skuli alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum á hernumdu svæðunum í Palestínu og rétta yfir þeim sem brjóta þau. Ég vil alla vega hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að fylgja viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu í verki og þar getur ríkisstjórn sem leidd er af Vinstrihreyfingunni – grænu framboði ekki vikið af leið sinni í málefnum Palestínu sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar sem VG sat í.

Annar gríðarlega mikilvægur vettvangur til að vinna að framgöngu mannréttinda, lýðræðis og virðingar fyrir lögum er Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið, en við fögnum í ár 70 árum frá stofnun Evrópuráðsins. Á næsta ári fögnum við því að 70 ár verða liðin frá því að Ísland varð aðildarríki Evrópuráðsins og þar með hluti af því að vinna ötullega að framgangi mannréttinda og virðingu fyrir þeim. Það var framsýn og góð ákvörðun íslenskra stjórnvalda þess tíma, það hefur sýnt sig og sannað rækilega. Í gegnum Evrópuráðið er íslenska ríkið aðili að mannréttindasáttmála Evrópu sem er hin mesta réttarbót sem Ísland hefur undirgengist. Sáttmálinn hefur haft mikil og góð áhrif á réttarríkið hér á landi. Til að mynda hefur hann haft rík túlkunaráhrif á mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands eins og sjá má í dómum Hæstaréttar. Mannréttindadómstóll Evrópu tryggir síðan að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau grundvallarréttindi borgaranna sem kveðið er á um í sáttmálanum. Þessar mikilvægu stofnanir sem Ísland á aðild að verðum við að virða og hlúa að, veita meiri fjármuni í veru okkar þar og áhrif, allt í þágu mannréttinda, bæði hér á landi og í öðrum löndum sem hafa minni sögulega reynslu af lýðræðislegum stjórnarháttum en við.

Þá eru það jafnréttismálin, sem er eitt af skýrum viðmiðum um utanríkisstefnu Íslands. Og hvað þýðir það í raun og veru? Það má segja að við stöndum á tímamótum þegar kemur að því að bera jafnréttismálin á borð í alþjóðasamstarfi, því eftir að Klaustursmálið varð þekkt fyrir utan landsteinana er ekki annað hægt að segja en að útflutningsvaran íslenskt jafnrétti hafi rýrnað að verðgildi, jafnvel myglað svolítið eða súrnað. Ímynd okkar og orðspor í jafnréttismálum út á við hefur beðið álitshnekki. Virðing okkar í jafnréttismálum sem aðrar þjóðir hafa litið upp til í alþjóðasamstarfi hefur því miður dvínað. En kannski var hættan á því alltaf til staðar, því að margir áhrifamenn í íslenskum stjórnmálum hafa haft tilhneigingu til þess að líta á jafnréttismálin sem mjúk og auðveld mál sem alltaf væri auðvelt að tala fyrir og minna á í fögrum ræðum og riti.

Við þurfum að nota Klaustursmálið til að endurhugsa áherslur okkar í jafnréttismálum í utanríkisstefnu Íslands. Jafnrétti er, eins og ég sagði, eitt af grundvallarviðmiðum íslenskrar utanríkisstefnu. Og eins og fram kom í fyrirlestri Silju Báru Ómarsdóttur á nýafstaðinni ráðstefnu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um utanríkismál, þá sveipar Ísland sig jafnréttisáru. Kannski má segja að það sé eiginlega bara óvart að það sé stefna Íslands að halda alltaf á lofti jafnréttissjónarmiðunum á alþjóðavettvangi. En samt sem áður má alveg færa rök fyrir því að við höfum ekki gengið neitt sérstaklega langt í því. Til að mynda höfum við ekki lagt upp með að umbreyta kynjakerfinu líkt og Svíar gera í sinni femínísku utanríkisstefnu.

Ég sagði það í ræðu hér fyrir ári síðan og segi það aftur: Íslendingar eiga að halda úti femínískri utanríkisstefnu, leggja áherslu á kynja- og jafnréttismál á alþjóðavettvangi, auka framlög okkar til jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi og breikka aðkomu okkar enn frekar í þeim málum. Við erum komin með mjög góða reynslu úr þróunarsamvinnunni, úr utanríkisþjónustu okkar og ef við viljum sýna þá pólitísku áherslu að halda úti utanríkisstefnu sem er drifin áfram af jafnrétti kynjanna í hvívetna getum við svo sannarlega horft til Svíþjóðar sem hefur haldið úti mjög markvissri og árangursríkri femínískri utanríkisstefnu frá árinu 2015. Við getum lært mjög mikið af Svíum í þessu sem og í öðru. Ég hvet utanríkisráðherra og starfsfólk utanríkisráðuneytisins að sjálfsögðu til að halda okkar góða jafnréttisstarfi áfram uppi á alþjóðavettvangi, gefa í og gera það starf markvissara og leggja skarpa og skýra áherslu á umbreytingu kynjakerfisins öllum til heilla, konum og körlum.

Þá er það sjálfbæra þróunin sem á að vera eitt af meginviðmiðum utanríkisstefnu Íslands og hvernig hún birtist okkur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Við erum að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu 7. maí nk., en eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra hefur Norðurskautsráðið fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi þess aukist til muna á undanförnum árum. Eins og fram kemur í skýrslunni verður sjálfbærni meginþráðurinn í formennsku Íslands. Það er krefjandi verkefni á tímum mikilla loftslagsbreytinga sem hafa gríðarleg áhrif á norðurslóðir. Því skýtur það skökku við þegar talað er um möguleika sem felast í loftslagsbreytingunum, eins og gert er á bls. 10 í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Að mínu mati er það engan veginn viðeigandi að tala um möguleika sem felast í loftslagsbreytingum. Það er einfaldlega smekklaust og móðgandi við komandi kynslóðir sem krefjast róttækra aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Við stöndum frammi fyrir mestu ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir og við verðum að beita okkur af krafti fyrir róttækum aðgerðum til að sporna við losun á alþjóðavettvangi, sporna við bráðnun jökla og gera baráttuna gegn loftslagsbreytingum að meginatriði í utanríkisstefnu Íslands. Þá er ekki í boði að tala um tækifæri eða möguleika sem felast í loftslagsbreytingunum sem er öllum jarðarbúum áhyggjuefni og miklu meira en það.

Friðsamlegar lausnir eru líka eitt af meginviðmiðum utanríkisstefnu Íslands og það rímar ákaflega vel við áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Einmitt þess vegna bregður konu í brún þegar ljóst er að þrátt fyrir samdrátt í heildarútgjöldum til utanríkismála í fjármálaáætlun þessa árs þá hefur verið mikil aukning fjármuna til Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár og er boðuð áfram í skýrslunni, enda hafa hernaðarumsvif aukist í og við Ísland undanfarinn áratug. Viðvera erlends herliðs árið 2007 var 17 dagar en síðustu þrjú árin hefur erlent herlið verið hér með viðveru upp á hvern einasta dag. Fjöldi hermanna á Íslandi var árið 2007 225, en árið 2017 voru þeir orðnir 1.030. Aukning á fjármunum til hermála hefur aukist á síðustu árum. Fjármunir til NATO hafa farið úr 1.592 millj. kr. árið 2017 í 2.185 millj. kr. til NATO árið 2019.

Vissulega helgast vöxtur útgjalda til þessa málaflokks af vaxandi skuldbindingum sem Ísland hefur tekist á hendur innan Atlantshafsbandalagsins og aukinni tímabundinni viðveru liðsafla bandalagsins á Keflavíkurflugvelli vegna versnandi öryggisástands í Evrópu, þar með talið á Norður-Atlantshafi, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra. En minna en ekkert fer fyrir því öryggismati sem þarna liggur til grundvallar enda hefur það ekkert verið rætt í þingsal. Þar er ekki hægt að skýla sér á bak við leynd og trúnað sem bara á heima í þjóðaröryggisráði. Og áfram eru boðaðar framkvæmdir bandaríska sjó- og flughersins sem hefur aukið reglulega viðveru á Keflavíkurflugvelli og samhliða því verður ráðist í nýjar framkvæmdir til að styðja við þessa viðveru.

Þessa mikla aukning þarfnast einfaldlega ítarlegrar útskýringar og umræðu á þingi, frú forseti, enda rímar þessi þróun ákaflega illa við áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að því að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna. Ég hefði satt að segja viljað sjá skýrari áherslur stjórnmálahreyfingar minnar í ríkisstjórn þegar kemur að friði og friðsamlegum lausnum en ekki aukna viðveru erlends herliðs og aukningu á fjármunum til varnarmála í tíð ríkisstjórnar sem leidd er af Vinstri grænum. En þetta getur kannski hæstv. utanríkisráðherra útskýrt betur í andsvari sínu.

Við vitum líka að öflugasta tækið til að stuðla að friði er að draga úr ójöfnuði. Áherslur íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum verða að mínu mati að bera þess órækt vitni. Það er hægt að stuðla að því með því að draga úr ójöfnuði markvisst í ræðum, ritum og beinum aðgerðum á alþjóðavísu til að jafna kjör fólks um allan heim. En líkt og við vitum og hefur verið minnst á í umræðunni í dag er vaxandi ójöfnuður ein mesta ógn við heimsfrið. Ójöfnuður þegar kemur að aðgangi að auðlindum og náttúrulegum gæðum er oft uppspretta átaka, fátæktar og félagslegrar niðurlægingar sem býr til ósanngjarna misskiptingu gæða á milli heimsbúa og leiðir til harðvítugra átaka fólks. Jöfnuður á milli manna er grundvöllur friðar. Um það verður Ísland að tala og beita sér fyrir í hvívetna. Við þurfum að vera óhrædd í áherslum okkar í alþjóðamálum að stuðla að og beita okkur með beinum og markvissum hætti að því að koma á fót róttækum breytingum á því hvernig við útdeilum völdum gæðum milli ríkja sem og innan þeirra, svo sem á milli stétta, kynja og kynþátta. Ísland á að beita sér alþjóðlega fyrir efnahagslegum jöfnuði á milli fólks sem dregur úr líkum á því að átök brjótist út.

Þá kemur að því sem mér finnst ég nú hafa allt of oft talað um, en það eru áherslur Íslands þegar kemur að þróunarsamvinnu. Það er vissulega jákvætt að loksins skuli nú áætlað að framlag Íslands til þróunarsamvinnu skuli hækka smátt og smátt næstu árin og líkt og áður fagna ég þeim áherslum í þróunarsamvinnu Íslands sem snúast um að valdefla konur og stúlkur í þróunarríkjum og efla aðgang þeirra að menntun. En líkt og fleiri þá hefði ég viljað sjá enn metnaðarfyllri markmið í fjárframlögum Íslands til þróunarsamvinnunnar og að við myndum loksins standa við loforð okkar um að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og þar með skipa okkur loksins við hlið þeirra landa sem við miðum okkur alla jafna við. Því miður er það enn svo að Ísland veitir of stóran hluta af þeim framlögum til þróunarsamvinnu í aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur hér innan lands. Það að þeir fjármunir séu hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands á erlendri grundu fellur einfaldlega alls ekki undir almennar skilgreiningar á þróunarsamvinnu og er heldur ekki í samræmi við áherslur Íslands í þróunarsamvinnu.

Í síðustu jafningjaúttekt DAC-nefndarinnar er minnst á þetta hlutfall sem er tæplega 12–13% af þeim fjármunum Íslands sem fara í málefni flóttafólks og hælisleitenda af þróunarsamvinnufjármunum. Við getum vonandi flest verið sammála um að það þarf sannarlega að auka fjármuni í málaflokk hælisleitenda og fólks á flótta sem leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd og það eigum við að gera, en ekki taka það af fjármunum í þróunarsamvinnu. Málefni flóttafólks og hælisleitenda hér á landi falla undir verkefnasvið velferðar- og innanríkisráðuneytisins og eiga að vera aðskilin framlagi Íslands til þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.

Að því sögðu þarf Ísland að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum. Íslandi ber siðferðisleg skylda til að auka framlag sitt í þróunar- og mannúðarmálum. Við eigum nefnilega öll að halda af öllu afli í mannúðina sem drífur áfram samkenndina sem tengir okkur öll saman svo við getum leyst okkar erfiðustu vandamál. Ef fjármunir frá ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra renna í móttöku hælisleitenda og flóttafólks þá verður hæstv. utanríkisráðherra að taka ábyrgð á og svara fyrir stefnu í málefnum hælisleitenda og fólks sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd. Margir segja að sú stefna hafi farið mjög harðnandi. Til að mynda höfum við séð endalaust fréttir og frásagnir af því að hér sé verið að vísa börnum, konum og fjölskyldum í viðkvæmri stöðu af landi brott sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd. Þetta eru fjármunir sem koma frá ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra. Þá verður ráðherrann að skýra þá stefnu.

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kemur í skýrslunni um að sjálfbær nýting náttúruauðlinda og heilnæmt umhverfi sé stærsta hagsmunamál Íslands og forsenda sjálfstæðis í nútíð og framtíð. Við vitum að aukinn ágangur á auðlindir jarðar og áhrif mannkynsins á loftslag hennar leiðir af sér fólksflótta, misskiptingu auðs og misskiptingu aðgangs að náttúruauðlindum og stefnir því sjálfu mannkyninu í hættu. Við sem ríki höfum gengist undir ýmsa alþjóðlega samninga og skuldbindingar er snúast um umhverfismál og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og ég hvet að sjálfsögðu utanríkisráðherra til að halda því ávallt á lofti.

Að lokum vil ég minna á það að Ísland á að halda úti sjálfstæðri utanríkisstefnu og leggja á alþjóðavettvangi áherslu á frið, mannréttindi og mannúð, réttlæti og lýðræði. Við eigum að standa bein í baki og full sjálfstrausts þegar kemur að því að halda úti okkar góða starfi á alþjóðavettvangi þrátt fyrir smæð okkar. Það er nefnilega svo að fámenn ríki hafa komið frábærum hlutum til leiðar í alþjóðasamhengi og þar erum við engin undantekning og það gerum við að sjálfsögðu mest (Forseti hringir.) og best í virku alþjóðastarfi og alþjóðasamvinnu.