149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Allt rétt sem hv. þingmaður sagði hér. Ég vil líka taka það jákvæðasta sem mér hefur fundist koma fram í þessari umræðu hér í dag og þá ekki bara hjá hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Hér hafa komið aðilar, hv. þingmenn úr ólíkum flokkum, hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hv. þm. Logi Már Einarsson, svo ég taki nú þessa ólíku flokka. Allir þessir hv. þingmenn vísuðu í — og hvöttu mig og ríkisstjórnina til dáða — að halda utan um gildin okkar, sem eins og hv. þingmaður vísaði til okkur finnst vera algerlega sjálfsagt. Það er ekkert sjálfsagt. Við erum í minni hluta í heiminum, við erum minni hluti jarðarbúa sem búum við þessi gildi sem við tölum um eins og séu algjörlega sjálfsögð.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður vísar til, að það er kannski í fyrsta skipti í mjög langan tíma að heyrist ávæningur, sérstaklega þegar kemur að frjálsum alþjóðaviðskiptum, af röddum á Íslandi sem er langt síðan við heyrðum. Það er ekkert hægt að tala neitt öðruvísi um það en það.

Það er mjög mikilvægt að við bregðumst við strax, grípum til varna. Því það mun koma illa niður á öllum, en þó aðallega og fyrst og fremst íslenskri þjóð, ef við hörfum eitthvað frá þeim áherslum sem hefur verið þverpólitísk samstaða um í áratugi á Íslandi þegar kemur að því að leggja áherslu á frjáls viðskipti.