149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir útúrsnúningana. Það er nú bara þannig að staðreyndir tala sínu máli, hæstv. ráðherra, og sporin hræða í þessum efnum. Það er bara nauðsynlegt að ræða hér um orkupakka eitt í þessu samhengi vegna þess að hann hafði afleiðingar fyrir þjóðina, fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, til hækkunar á raforkuverði. Það er nákvæmlega það sama sem mun gerast þegar orkupakki þrjú mun verða samþykktur.

Tilgangurinn er sá að samræma raforkuverðið í Evrópu. Það er ekkert launungarmál, við skulum bara segja sannleikann eins og hann er. Núna búum við við lægsta raforkuverð sem um getur í Evrópu og það mun hækka.

Hæstv. ráðherra hefur engar áhyggjur af þessu vegna þess að það verður ekki lagður sæstrengur. Það þarf ekki annað en bara ríkisstjórnarskipti og Samfylkinguna og Viðreisn í ríkisstjórn og þá er kominn sæstrengur. Það er bara ósköp einfalt. (Gripið fram í: Eða Sigmund Davíð.) Þetta eru bara útúrsnúningar hjá hæstv. ráðherra.

Það þarf kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af sæstreng til Bretlands ef Bretland er að fara úr Evrópusambandinu, það er nú bara þannig. En þetta er samevrópskt regluverk sem við erum að undirgangast og sporin hræða í þessum efnum. Það er fullkomlega eðlilegt að ræða það í þessu samhengi. Vegna þess að ég tel að sú hagsmunagæsla sem hér er í gangi sé ekki nægileg. Hún er ekki nægileg. Það er ekki til ein séríslensk leið í þessum efnum.

Ég spyr bara hæstv. ráðherra: Við hvað er ráðherra hræddur ef þetta mál fer fyrir sameiginlegu EES-nefndina og við segjum nei við þessum orkupakka? Við höfum aldrei sagt nei í 25 ára sögu þessa samnings. Þetta er partur af samningnum, að geta leyst deilumál með því að setja þau fyrir nefndina. Það er nákvæmlega það sem við eigum að gera. Þetta er eitthvað til heimabrúks, að reyna að friða Sjálfstæðismenn, grasrót Sjálfstæðisflokksins, með því að búa til eitthvert regluverk um það að hér verði ekki lagður sæstrengur — sem kemur ekki til með að halda nokkrum sköpuðum hlutum í þessu þegar fram í sækir. Við eigum eftir að sjá það. Það verður kannski ekki á morgun en það verður innan fárra ára, hæstv. ráðherra.