149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki talað nógu skýrt, ég var meira að vísa til Íslands. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við sjáum á mörgum stöðum í heiminum að við erum að fara til baka, ekki aðeins í jafnréttismálum heldur í mannréttindamálum almennt. Þróunin í heild er í rétta átt en svo eru áberandi undantekningar. Ég held að mesta hættan sé fyrir hendi ef við tökum einhverju sem sjálfsögðum hlut.

Ég vísaði til þess að litla Ísland getur skipt máli og þá er held ég stærsta málið að við getum gengið á undan með góðu fordæmi, en stundum höfum við líka bara sögu að segja. Við sjáum að það er mikið litið til okkar út af jafnrétti kynjanna, auðvitað líka út af fleiri mannréttindamálum en sérstaklega jafnrétti. Þá er gott að geta sagt sögu okkar. Ég held að það sé líklegt til að vekja athygli fólks. Það er þannig að við erum mjög oft kölluð til. Ég er mjög oft kallaður til til að ræða jafnréttismál víðs vegar um heiminn.

Ég skal viðurkenna að ég er svolítið að hugsa upphátt hérna. Ég geri það vegna þess að verkefni okkar allra er að setja þetta í einhvern þann búning að það skiljist. Við erum söguþjóð og það er oft gott að geta sett hlutina í söguform, þótt það séu mjög stuttar sögur, kannski sagðar í einhverjum setningum.

Ég held að ungu drengirnir okkar séu komnir miklu lengra en í það minnsta mín kynslóð þegar kemur að jafnréttismálum. Það er eitthvað sem þeir hafa alist upp við og nær allir upplifað. En á sama hátt steðjar líka ógn að þeim, allar tölur sýna okkur það. Við eigum ekki að bíða með að taka á því og ættum að nálgast það út frá jafnrétti kynjanna. Ég held að það sé góður bragur á því.