149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:23]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hv. þingmönnum fyrir ágæta og fróðlega umræðu. Ég ætla ekki að lengja hana mjög en vil tæpa á örfáum atriðum sem eru kannski mest uppástungur. En fyrst örlítið um mikilvægi alþjóðasamstarfs og utanríkisþjónustu. Ég ætla að leyfa mér að vísa til þeirra ferða sem ég hef farið til margra heimshorna og samskipta sem ég hef átt við alls konar fólk, bæði opinberlega og óopinberlega, og hafi einhver einhvern tíma sagt, sem ég veit að er reyndar margbúið að tyggja, að því minni sem þjóð er þeim mun meira skuli hún leggja í utanríkisþjónustu og alþjóðasamstarf þá er það svo sannarlega satt. Þær 280 eða 290 sálir sem sinna þessu hér eru efni í kannski eina eða tvær deildir í stóru Evrópuríki, utanríkisþjónustu þar. Þær hafa auðvitað unnið gott starf og það kemur ljóslega fram í skýrslunni.

Mig langar aðeins að koma að ákveðnum þætti í utanríkisþjónustu, sem er reksturinn hér heima fyrir, stjórnsýsluþátturinn svokallaður. Heildarfjármunirnir sem þjónustan hefur eru í kringum 15 milljarðar á ári. Það er af upphæð sem er langt yfir 900 milljörðum, sem er það sem ríkið hefur milli handa, getum orðað það þannig. Inni í þessu er auðvitað þróunarsamvinnan sjálf, næstum helmingur eða um helmingur. Þarna eru inni varnarmál og utanríkisþjónusta, þessi hefðbundna, og svo stjórnsýslan sem ég nefndi, viðskiptaþróun og fleira. Menn sjá þá af hlutfallinu að þetta er ekki mjög há upphæð og það er ekki mjög mikill fjöldi sem að þessu vinnur. Með því að hlusta á gesti ráðuneytis og með því að kanna aðeins tölur og annað þá tel ég að það vanti um 500 milljónir inn í þennan stjórnsýsluþátt svo vel megi við una í rekstri stofnunarinnar heima fyrir. Ég skora á Alþingi að sjá til þess að fundið verði fé upp í þetta, hvort sem það verður nú í einu skrefi upp í það sem augljóslega vantar, eða í fleiri skrefum. Það skiptir kannski ekki öllu máli. En ég held að við verðum að viðurkenna að það þarf að gera aðeins betur þegar kemur að rekstrarfé.

Í framhjáhlaupi, almennt séð þegar ég lít á þessa skýrslu þá er ég auðvitað sammála þeim sem hafa komið hér upp og talað um aukin framlög til þróunarsamvinnu. Það hafa verið góðar hækkanir á þessu hlutfalli af vergri landsframleiðslu, en við stefnum auðvitað í skrefum að 0,7%, marki OECD, og ég hvet til þess að það sé slegið í klárinn.

Ég ætla aðallega að fjalla um norðurslóðir vegna þess að mér er málið skylt, bæði sem formaður þingmannanefndar norðurslóða og sitjandi í utanríkismálanefnd. Í skýrslunni eru norðurslóðamálin réttilega merkt sem forgangsmál og mikið í lagt að auka umfangið, auka starfsemina, vera frjór og nýjungagjarn, svo ég persónugeri þetta.

Mig langar þá að spyrja: Hvernig og hvenær verður komið að endurskoðun norðurslóðastefnu Íslands? Hún er frá 2011 og augljóslega kominn tími til þess að hún verði endurskoðuð og sett fram að nýju. Þetta var það fyrsta.

Annað er vísindasamstarf, sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á. Það er núna m.a. á formi samstarfs sem er kallað IASC, eða Alþjóðaheimskautavísindasamstarfið, ef við orðum það þannig. Þar fer fram gagnasöfnun, samstarf í rannsóknum o.s.frv. Það er þó einn þáttur sem ég held að hafi verið, ég er ekki að segja vanræktur en vantar að sé sinnt, en það er miðlun upplýsinga milli landa og milli vísindamanna á alveg sérstöku formi. Þá á ég við að greinar sem eru skrifaðar á ólíkum tungumálum séu þýddar á tungumál sem viðkomandi skilja. Við vitum það nú að t.d. rússneskir vísindamenn skrifa ekki endilega almennt greinar á ensku. Sem sagt þýðingar á þessum greinum og það sé sett á stofn eins konar miðlunarstofa, einhvers konar dreifikerfi, á þessu efni. Ég held að það myndi skipta vísindasamstarf miklu máli ef þarna væru búnar til greiðar gáttir að frumkvæði Íslands.

Í þessu sambandi má minnast á að það var jú undirritaður eða gengið frá samningi um aukið vísindasamstarf á norðurslóðum í Fairbanks 2017. Þessi hugmynd, sem ég vil upplýsa að fyrrnefndur hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir á líka þátt í, myndi vera ágætlega í samræmi við þetta aukna vísindasamstarf, þ.e. að miðla niðurstöðum greiðlega á tungumálum sem aðrir vísindamenn skilja en við sem erum enskumælandi.

Þá langar mig að koma að friðun hafsvæða á norðurslóðum. Þar vil ég líka að Ísland sýni frumkvæði og þá er ég að tala um til langs tíma. Friðuð hafsvæði geta verið lítil, þau geta verið stór, en tilgangurinn er að vernda líffræðilega fjölbreytni og hlífa þessum svæðum fyrir auðlindavinnslu á hafsbotni eða á annan máta. Þarna gæti Ísland verið rödd skynseminnar og komið ýmsu góðu til leiðar.

Að síðustu langar mig að minnast á nokkuð sem ég hef aðeins beitt mér fyrir á vettvangi þessarar þingmannanefndar. Það er kynning á norðurslóðum, á náttúrunni, menningunni, mannlífinu og á samstarfinu sem á sér stað milli þessara átta þjóða sem þarna eru, Evrópuþingsins, þeirra aðila sem senda áheyrnarfulltrúa o.s.frv. og ekki hvað síst á afrakstri þess starfs sem fer fram hjá Norðurskautsráðinu. Þá er ég að hugsa um allar gerðir fjölmiðlunar, bæði hefðbundna fjölmiðla og nýja, netsjónvarpsþætti eða hvaðeina, það sé lögð vinna í það að kynna norðurslóðirnar sjálfar, samstarfið, afraksturinn og síðast en ekki síst, þýðingu þessa heimssvæðis. Það er búið að búa til margar ágætar setningar um að það sem gerist í norðrinu verði kyrrt í norðrinu, þetta er svona léleg þýðingu úr ensku. Ég hef heyrt líka að heimskautin bæði séu fjöregg heimsbyggðarinnar þegar kemur að loftslagsmálum. Ég er svo sannfærður sjálfur um að þekking sem flestra, almennings á ég við, annarra stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna, þekking á þessum slóðum, þekking á þessum málaflokki, er eitthvert besta vopnið í baráttunni fyrir góðu mannlífi þar en ekki hvað síst í baráttunni gegn hlýnun loftslagsins. Að öllu samanlögðu er góð kynning á því sem við erum að gera og snertir norðurslóðamál, líka það sem Alþingi er að gera, mikilvægt málefni sem þarf að sinna.

Hér bar á góma loftslagsmál í utanríkismálum Íslendinga. Ég hugsaði mig bara skamma stund um og datt í hug að svara sjálfum mér og öðrum. Hvar birtast loftslagsmálin í utanríkisstefnu Íslands? Þá ætla ég að byrja á vísindasamstarfinu. Hvað er mikilvægara en gott vísindastarf þegar kemur að loftslagsmálum? Þar hefur Ísland vissulega gert margt, kemur fram í skýrslunni, sem skiptir verulegu máli. Ég bendi á markmið Norðurskautsráðsins sjálfs um hraðari samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir. Um það er til formleg samþykkt hjá Norðurskautsráðinu og Ísland er aðili að því. Ég vil nefna íslenska nýsköpun, íslenskar leiðir, til orkuöflunar á köldum svæðum í norðri, samanber áherslu Íslands í formennskunni núna í Norðurskautsráðinu. Ég vil nefna þróunarsamstarf, orkuöflun, til að mynda í Afríku, þátttöku í ýmiss konar alþjóðlegum samkomulögum sem lúta að loftslagsmálum, hvort það er Parísarsamkomulagið eða annað. Ég nefni þátttöku í viðskiptum með losunarheimildir, sem eru jú til þess gerðar að draga saman losun, samstarf í Norðurlandaráði og samstarf í Vestnorræna ráðinu. (Forseti hringir.) Auðvitað mætti betur fara (Forseti hringir.) en þetta eru dæmi um það sem verið er að gera og það er ekki lítið sem þetta litar (Forseti hringir.) utanríkismálin.