149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að fara aðeins yfir það með honum. Ég er ekki að réttlæta að fólk sé drepið án dóms og laga. Ég sagði einfaldlega að menn ættu að stíga varlega til jarðar í þeim efnum og kynna sér málin í þaula. Er það ekki nákvæmlega það sem þarf að gera? Hv. þingmaður sagði sjálfur að málið yrði rannsakað af Alþjóðaglæpadómstólnum. Þá fæst niðurstaða í hvort þetta eigi við rök að styðjast og í framhaldi af því, ef svo verður, væri tilefni til þess að fordæma málið frammi fyrir mannréttindaráðinu. Ég held að hv. þingmaður sé að gera mjög mikið úr orðum mínum hvað þetta varðar.

Falsfréttir eru hluti af málinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið með því að ræða við samfélag Filippseyinga hér á landi er það alveg rétt með eiturlyfjaglæpagengin að allt byggist þetta á því að menn eru drepnir í svokölluðum skotbardögum vegna þess að þeir skjóta á lögreglu og þá er skotið til baka. Það hefur forsetinn heimilað. Ef hv. þingmaður lítur svo á að ekki eigi bregðast þannig við heldur ætti lögreglan að reyna að handtaka eiturlyfjamennina og í framhaldi stofna lífi sínu í hættu er það svolítil einföldun á málinu. En þetta er ein af staðreyndunum í málinu, hv. þingmaður.

Ég held að við verðum einfaldlega að fá afgerandi niðurstöðu í svona mál, eins og frá Alþjóðaglæpadómstólnum, áður en við förum að taka þá afstöðu að fordæma það eins og við gerðum fyrir mannréttindaráðinu.