149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú nota tækifærið og þakka kærlega fyrir góða umræðu. Ég vildi samt aðeins nefna út af þessari umræðu sem kom í lokin, fyrir þá sem eru að horfa, svo menn séu meðvitaðir um samhengi hlutanna, að við leiddum ályktun 40 ríkja út af málefnum Filippseyja og ekkert af þeim ríkjum er á móti því að það sé barist gegn glæpahringjum, mjög langur vegur frá. En menn hljóta alltaf að hafa áhyggjur af því þegar eðli máls samkvæmt er um að ræða aftökur án dóms og laga.

Höfum við Íslendingar tök á því að rannsaka alls staðar sjálfvirkt það sem snýr að mannréttindabrotum? Nei, við höfum það ekki og það mun aldrei verða. Ég held að það sé í sjálfu sér heldur ekki æskilegt. En það sem við reiðum okkur á eru upplýsingar frá alþjóðastofnunum sem njóta trausts. Af því að verið er að vísa í þetta mál sérstaklega var það eitt af því sem ég lagði að kollega mínum frá Filippseyjum, að þessar alþjóðastofnanir fengju tækifæri til að skoða þessi mál. En það var ekki fallist á það.

Án þess að fara neitt meira út í það held ég að þegar við hugsum það eigum ekki að hvika neitt í því að hafa frumkvæði og styðja þegar verið er að gagnrýna mannréttindabrot. Það er alls ekki þannig að þau ríki sem verða fyrir slíkri gagnrýni, t.d. Sádi-Arabar, hafi ekki gripið til varna og komið með alls konar réttlætingar fyrir mál sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði réttilega að við áttum að gagnrýna. Það er ekki eins og þau hafi ekki gripið til varna, talað m.a. um falsfréttir — sem eru alvöru hlutur og ég er ekki að gera lítið úr þeim. En við verðum að treysta á alþjóðasamfélagið í þessu, þó svo að sjálfsögðu eigi allir rétt á því að tala sínu máli.

Hv. þingmaður vísaði hér í falsfréttir. Þær eru alvarlegt mál. Ég held að vísu að það sé eitthvað sem við eigum að ræða og skoða sérstaklega núna hér á hv. Alþingi, hvernig þetta nýja umhverfi er og hvernig það er að þróast. Við tökum þátt í samstarfi, m.a. á vegum NATO, hvað þessa hluti varðar, en þetta heyrir beint undir dómsmálaráðuneytið og þjóðaröryggisráðið, þó svo að auðvitað komum við að því. En það er hins vegar rétt að það er hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur kannski mest um þau mál að segja.

Sömuleiðis eigum við líka að ræða, finnst mér, hvernig erlendir aðilar hafa áhrif á umræðu. Af því við ræddum hér lítillega orkupakkann: Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að mér finnst fullkomlega óeðlilegt hvernig ákveðin hagsmunasamtök, að vísu bara einn stjórnmálaflokkur, reynir að hafa áhrif á umræðuna hér og er ekki að hugsa um íslenska hagsmuni. Þá er ég að vísa til orkupakkans.

Ég man ekki eftir því og er búinn að fylgjast með stjórnmálum í nokkra áratugi að svona staða hafi komið upp áður. Þá er ég — svo það sé alveg skýrt — að vísa í norska Miðflokkinn og ég er að vísa í samtökin Nej til EU, sem eru búin að berjast gegn því í áratugi að Noregur sé í EES. Þau eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni, fullyrði ég, þegar þau beita sér hér á Íslandi.

Umræðan fannst mér vera góð og málefnaleg. Að vísu skal ég alveg viðurkenna að það sem stendur upp úr, og ég er aðeins að melta, er þegar hinn ágæti þingmaður hv. þm. Bergþór Ólason kom með skýrslu sem ég hef aldrei séð áður frá Evrópuráðinu um að Ísland sé enn þá með umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að þetta kalli á að þeir aðilar sem að þessu máli stóðu á sínum tíma, sem eru báðir hér á þingi, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, fái nú að útskýra sitt mál. Ég held að það væri mjög ósanngjarnt annað en þeir fengju nú að útskýra sína hlið á þessu máli.

Auðvitað stendur ekkert á okkur í utanríkisráðuneytinu að veita allar þær upplýsingar sem menn vilja fá um málið. En það lá alveg fyrir og liggur alveg fyrir á hvers forræði þetta mál var. Þetta var á forræði þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Og ef menn hafa gengið þannig fram að það leiki einhver vafi á því hvort við séum með aðildarumsókn að Evrópusambandinu hef ég ekki séð það á mínum borðum. Hins vegar skiptir máli að menn skoði þetta.

Ég hugsa að hv. utanríkismálanefnd sé kannski best til þess fallin að skoða þetta mál. Ég hvet hv. þm. Bergþór Ólason til þess að beina máli sínu þangað. En auðvitað þurfa þeir aðilar sem stóðu að málinu á sínum tíma að fá að útskýra sína hlið á málinu. Það væri ósanngjarnt að vera að fella einhverja dóma án þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fengju að bera hönd yfir höfuð sér og útskýra sitt mál.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom líka hér með fyrirspurn sem ég vildi gjarnan svara, úr því ég hef nokkrar mínútur. Ég hef þá reglu að fara í andsvör við þingmenn, því að mér finnst skrýtið þegar ráðherra kemur bara í lokin eftir að hann er búinn að hlusta á allar ræðurnar. Það er fullkomlega útilokað á fimm mínútum að hann geti svarað öllu sem fram kemur. Ég vona að það sé upplýsandi þegar ég kem jafnóðum til að útskýra.

Varðandi Rússa, af því ég var spurður hvort málin þokuðust áfram: Það eru þeir sem settu viðskiptabann á okkur. Þeir ákváðu að taka út flokka sem koma verst niður á okkur. Sömuleiðis fá t.d. afurðastöðvar sem við treystum og eru traustsins verðar ekki að selja inn á Rússlandsmarkað. Við höfum reynt að ýta á eftir því að það verði einhver slaki á þessu, því að ekki séu nein málefnaleg rök fyrir þessu. Það hafa verið mikil viðskipti milli Íslands og Rússlands, þau hafa aukist mjög mikið á undanförnum misserum. Við erum með vinna með Viðskiptaráði að því að koma á íslensk-rússnesku viðskiptaráði og það er ýmislegt annað sem við gerum til þess að liðka fyrir viðskiptum og sömuleiðis að hvetja þá til að létta viðskiptabanninu af okkur.

Varðandi Kína. Við erum búin að fá hollustureglurnar samþykktar varðandi lambakjötið. Við erum að vinna að því varðandi eldisfiskinn, bæði lax og silung, og sömuleiðis fiskimjöl og lýsi.

Varðandi Japan lýsti ég því hér áðan — og ég gat sagt frá því í dag — að það mál er búið að vera að undirbúa mjög lengi, og það er ástæðan fyrir því að ég fór til Japans, til að ýta á eftir því og fleiru. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað samskipti milli Íslands og Japans hafa stóreflst. Og það að við séum að senda fulltrúa 6. júní til Tókýó til þess að hefja þetta viðskiptasamráð, sem mun vonandi leiða til fríverslunarsamnings, eru mjög góðar fréttir fyrir okkur. Ég er ánægður að geta notað þennan dag í dag til að segja frá því. Við munum auðvitað að kynna þetta nánar.

Höfum við náð niðurstöðunni sem viljum? Nei, en við erum byrjuð. Við erum loksins komin af stað. Ég held að þetta sé orðinn áratugur, í það minnsta, sem við erum búin að reyna að komast á þennan stað.

Sama með efnahagssamráð við Bandaríkin. Það er reyndar sama dag, held ég, 6. júní. Þá koma fulltrúar bandarískra stjórnvalda hingað til þess að ræða aukið viðskiptasamráð. Við vonumst til þess að það muni leiða til lengri samnings, vonandi fríverslunarsamnings, eða einhvers annars sem muni liðka fyrir viðskiptunum og auðvelda okkur að eiga viðskipti við Bandaríkjamenn og þeim að eiga viðskipti við okkur. Það er markmiðið. Og þetta sýnir svart á hvítu að hagsmunagæslan skilar árangri.

Við erum ekki byrjuð að fagna, en við erum að stíga hér fyrstu skrefin, nokkuð sem við erum búin að bíða eftir mjög lengi. Frá því að ég kom inn sem ráðherra hefur verið unnið sleitulaust að þessu. Ég er ánægður að heyra viðbrögð hv. þingmanna sem hafa rætt þetta. Þau koma að vísu ekki á óvart því þetta eru góðar fréttir og við erum búin að bíða eftir þessu lengi.

Í lokin, virðulegi forseti, vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í umræðunni. Mér finnst við vera að þróast í rétta átt, að ræða meira utanríkismálin, alþjóðamálin og ræða hér sérstaklega Evrópska efnahagssvæðið, ræða sérstaklega þróunarmálin. Ég held að því meira sem við gerum af þessu, því betra, því það eru ekki bara hv. þingmenn sem verða að vita hvað við erum að gera og af hverju og koma með sitt innlegg, heldur er mjög mikilvægt að þjóðin sé meðvituð um það líka.