149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í dag greiðum við atkvæði um eitt stærsta kvenfrelsismálið sem komið hefur fyrir þetta þing á þessari öld. Það er gríðarlegt fagnaðarefni að málið sé komið á þennan stað á þessu þingi. Til hamingju konur. Á leiðinni er löggjöf um frjósemisfrelsi okkar byggt á mati sérfræðinga og þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem veita konum þessa þjónustu. En um leið opinberar þetta mál raunverulega afstöðu þeirra þingmanna sem ekki treysta mati sérfræðinganna, sem ekki treysta konum til að hafa frjósemisfrelsi. Þetta upplýsir um raunverulega afstöðu þeirra. Þessir hv. þingmenn geta sagt: Ég líka og HeForShe, en raunveruleg afstaða þeirra til kvenfrelsis birtist þegar greidd eru atkvæði um traust til sjálfsákvörðunarréttar kvenna yfir eigin líkama. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)