149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

brottkast.

[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því að Hafrannsóknastofnun yrði innt álits á þeim reglum sem settar voru varðandi lúðuveiðarnar. Ég held að það hafi verið alveg óumdeilt og sé óumdeilt að full þörf var á því að setja þá reglu sem sett var. En ég heyri bæði frá sjómönnum og frá greininni í heild sinni að menn hafa ástæðu til að ætla að lúðustofninn sé að styrkjast verulega. Þess vegna óskaði ég eftir því að fá álit frá Hafrannsóknastofnun á því hvort ástæða væri til þess að breyta þeirri reglu sem sett var. Við höfum ekki tekið ákvörðun um að gera það. Hins vegar er alveg augljóst að tilhliðranir í þeim efnum verða til þess að koma með aukinn afla að landi. Við getum nefnt dæmi af breytingunni sem gerð var í strandveiðunum þar sem 60% meira af ufsa var landað af strandveiðinni árið 2018 en árið á undan þegar slakað var á þeim takmörkunum sem þarna voru settar á fyrri tíð. Það eru því dæmi um (Forseti hringir.) að við getum með tiltölulega litlum breytingum búið til jákvæðari afkomu.