149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar. Ef ég man rétt sá ég í sænskri rannsókn að það sé mjög líklegt að verði raunin sú að við förum að selja áfengi annaðhvort í stórmörkuðum eða eins og nú á að fara að gefa okkur í teskeiðum í sérverslunum, sem yrðu þá væntanlega deildir í stórmörkuðum, eða hvernig það væri nú, muni neysla hreins vínanda á mann á ári fara úr þessum rúmu 8 lítrum, eins og hún er núna, upp í um 11. Þá værum við komin á par með Dönum, Þjóðverjum, Bretum sem deyja að meðaltali tveimur til þremur árum yngri en Íslendingar.

Nú er talað mikið um að fara eigi í forvarnaátak og ég veit ekki hvað en mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi séð einhvers staðar í tillögum þeirra ágætu flutningsmanna sem flytja frumvarpið hvernig þeir hyggist bregðast við stórfjölgun krabbameinstilfella, stórfjölgun í hjarta- og æðasjúkdómum og stórfjölgun í skorpulifur sem nú er farin að sjást á Íslandi. Hún er nánast í fyrsta skipti mælanleg frá því að rannsóknir hófust ef ég hef ekki rangt fyrir mér. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi séð það einhvers staðar í greinargerðinni sem þarna er sett fram að menn ætli sér að nota eitthvert verulegt fjármagn til að mæta þeim aukna heilbrigðisvanda sem við vitum að mun fylgja.

Mig langar einnig til að spyrja hv. þingmann, af því að það hefur glitt í það í umræðunni að menn vilji að auki afnema auglýsingabann á áfengi, hvort hún hefur gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það myndi hafa, ef nokkrar.