149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get séð fyrir mér mörg vandamál við framkvæmdina á þessu öllu saman. Ég vona satt að segja að við þurfum ekki að hugsa til þeirra vegna þess að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Eitt af því sem hv. þingmaður nefnir hér eru Norðurlöndin. Ég er í Norðurlandaráði og á þar í samskiptum við norræna þingmenn. Þegar þetta ber á góma, þ.e. að við séum hér að ræða slag í slag þessa hugmynd að auka aðgengi að áfengi, segja norrænu þingmennirnir: Ekki gera það, ekki gera þetta. Það er svo erfitt að snúa til baka. Svíar reyndu að snúa til baka og gerðu það að hluta til. Þess vegna hafa þeir svona góðar mælingar, fyrir og eftir og á milli. Þeirra tölur eru hreinlega mælingar á því sem gerðist við þessar breytingar hjá þeim.

Norrænir þingmenn segja: Ef þið teljið aðgengi vera nægilegt fyrir skuluð þið ekki gera þetta. Ég er ekki hlynnt áfengisbanni en ég vil halda því í sérverslunum. Ég vil halda því þannig að það sé sérstök ákvörðun að fara út úr matvörubúðinni og inn í áfengisverslunina, ætli fólk að kaupa sér áfengi. En alls ekki að auka aðgengi meira en það er. Það er nóg samt.